Streymi í fangelsum
Kórónuveirufaraldurinn kallar fram alls konar hömlur sem eru áður óþekktar. Það á líka við um fangelsin. Engar heimsóknir eru til dæmis leyfðar í fangelsin og er það mörgum þungbært.
Helgihald í fangelsum um hátíðar og annan tíma kallar á ýmsa til þátttöku. Undirleikara og söngfólk. Fangaverði og annað starfsfólk fangelsanna. Og fangarnir sækja svo stundirnar. En þessu öllu hefur samkomubannið og veiran breytt.
Kirkjan.is ræddi við sr. Sigrúnu Óskarsdóttur, fangaprest, og spurði hvernig guðsþjónustuhaldi í fangelsunum yrði háttað um páskana í ljósi kórónufaraldursins.
„Fangar fá sína páskamessu sem betur fer,“ sagði sr. Sigrún glöð í bragði. „Við KK tókum upp tvær helgistundir, önnur þeirra var sýnd í dag og og hinni verður streymt kl. 14.00 á páskadag."
Hún segist hafa verið mjög fegin að KK hafði tækifæri til að leggja málefninu lið og þau hafi ákveðið að taka upp tvær stundir. Þær voru teknar upp í Árbæjarkirkju en þar þjónaði sr. Sigrún sem prestur í rúman áratug. „Og það var starfmaður frá Stúdíó Sýrlandi sem átti heiðurinn af upptökunni og annar starfsmaður sá um að streyma henni,“ segir sr. Sigrún og bætir við að miklu máli skipti að upptakan sjálf sé vel skipulögð og vandað til allra verka. Það var gert.
„Ég var mjög fegin,“ segir sr. Sigrún, „að fá möguleika til að koma gleðiboðskap páska til fanganna.“
Kirkjan.is ræddi við einn fanga á Litla-Hrauni sem horfði á helgistundina í dag og fannst honum hún koma vel út – hann horfði á stundina í klefa sínum. „KK var flottur,“ sagði hann, „og líka þessi Sigrún, presturinn.“
AA- fundirnir eru líka sýndir í sjónvarpinu.
Sr. Sigrún tók við sem fangaprestur 1. mars s.l. Kórónuveirutíminn hefur sett mark sitt á þjónustuna og því hefur verið gripið til bæði gamalla og nýrra leiða. Síminn notaður mikið – og svo sett upp Facebókarsíða fangaprests sem sjá má hér.
Tónlistarmaðurinn KK nær mjög vel til fanga