Fólk mætti í helgistund!

12. apríl 2020

Fólk mætti í helgistund!

Heimilisfólk beggja megin húss á svölum - gott bil á milli allra

Allt helgihald páskanna fer meira og minna fram með rafrænum hætti vegna kórónuveirunnar.

En þó ekki allt. Ekkert er nefnilega án undantekninga.

Þau í Vídalínskirkju héldu fylktu liði út á páskadag – og að sjálfsögðu tveir metrar á milli hvers og eins hvað líkamann áhrærir en voru aftur á móti þétt saman í andanum.

Og hvert var förinni heitið?

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarpresturinn, fór á Ísafold, hjúkrunarheimili í Garðasókn, með Gospelkór kirkjunnar og setti þar upp í heimilisgarðinum með sínu fólki litla og fallega helgistund í dag, á páskadegi, kl. 14.00. Kórstjóri var Davíð Sigurgeirsson, gítarleikari. Páskaguðspjallið frá guðspjallamanninum Markúsi var lesið, presturinn flutti snjalla örprédikun, það var sungið og beðið. Bjart var yfir stundinni og hlýtt.

Þau stóðu í garðinum og að sjálfsögðu með gott bil á milli sín en andinn var einn. Nokkrir aðstandendur voru líka í hópnum og tóku þátt í stundinni með sínu fólki sem var uppi á svölunum.

Sr. Jóna Hrönn þekkti augljóslega margt af heimilisfólkinu, veifaði til þeirra og hrópaði upp til þeirra: „Gleðilega páska.“

Þó nokkur hópur heimilisfólks kom út á svalir beggja megin húss. Sumum var ekið í hjólastólum og teppum dreift til fólksins. Ekki var annað að sjá en að heimilisfólkið væri ánægt og það klappaði kórnum lof í lófa.

Já, fólk mætti í helgistundina - hver með sínum hætti. Hér var ekkert streymi á ferð enda þótt gott sé heldur var sjálfur söfnuðurinn kominn á vettvang af gömlum og góðum vana! Það heyrir til undantekninga nú um stundir.

Kirkjan.is kom á vettvang nokkru áður en stundin byrjaði og sá að þar fór um garðinn starfsstúlka sem týndi ýmislegt upp sem fokið hafði inn í garðinn. „Þetta er frábært hjá þeim,“ sagði hún brosandi, „að koma svona til heimilisfólksins í þessum aðstæðum þegar allt er svona skrítið.“

Heimilisfólk sem og starfsfólk var að vonum ánægt með tiltæki sóknarprestsins og hans fólks. Og þakklátt.

Nútímaheimili Ísafold er hjúkrunarheimili í Garðasókn – Hrafnista rekur það – heimilið var opnað fyrir þremur árum og er rekið eftir nýrri hugmyndafræði í öldrunarþjónustu þar sem íbúar hafa margt um það að segja hvernig málum er hagað innanhúss sem utan. Þar starfa hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraliðar, félagsliðar og starfsfólk við umönnun allan sólarhringinn.

Garðasókn

Facebókarsíða Vídalínskirkju

Heimasíðar Ísafoldar

hsh


Sr. Jóna Hrönn talar við fólkið


Sr. Jóna Hrönn og Davíð gítarleikari - heimilisfólk á svölum


  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Öldrunarþjónusta

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls