Getum við lært af Dönum?
Streymið er mál málanna hjá kirkjunum nú um stundir. Þær hafa verið duglegar undanfarið við að streyma á heimasíðum sínum sem og Facebókarsíðum frá helgihaldi og einkum og sér í lagi nú um páska. Þetta eru dagar streymiskirkjunnar.
Samkomubannið hefur fært kirkjuna tímabundið frá hefðbundnum stað og yfir í hinn óræða netheim. Kirkjurými til sjávar og sveitar, um landið þvert og endilangt, er komið á netið með sérstakri þátttöku sóknarbarnanna.
Danir hafa verið hugmyndaríkir í streymismálum sínum og viðbrögðum við samkomubanni á kórónuveirutíma. Þeir hafa líka spurt sig þeirrar gagnrýnu spurningar hvort streymið endurspegli prestakirkjuna. Eðli máls er söfnuðurinn dálítið á hliðarlínunni – eflaust eru til ráð við því að koma honum inn í streymið.
„Haldið upp á páskadag með því að draga tappa úr kampavínsflösku, og vínið streymir fram í gullnum dropum, já eins og upprisa“, hljóðuðu skilaboðin frá Havdrup-kirkju í Solrød en kirkjufólkið þar gaf út lista til sóknarbarnanna þar sem mátti finna hugmyndabanka um hvað hægt væri að gera um páskana. Þau stungu til dæmis upp á því að upplagt væri að baka svokallað krossbrauð á (cross buns) á skírdag.
Ein kirkja efndi til ljósmyndakeppni. Hægt var að senda myndir til kirkjunnar gegnum netið sem sýndu einhver páskastef – og stef sem endurómuðu söknuð eftir hinu hefðbundna hversdagslega lífi eða kirkjustarfi þegar kórónuveiran hefur umturnað öllu með sínum hætti. Verðlaun voru margvísleg – til dæmis silfurkross og stutt ferð um merkan kirkjusögustað í lok veirutíðar.
Elsta kirkjan á norður Sjálandi er Nødebo-kirkja. Hún blés til samsöngs fyrir utan kirkjuna í gær, páskadag. Meira en sextíu sóknarbörn mættu fyrir framan kirkjuna, gott bil á milli allra að sjálfsögðu. Léttsveit lék undir sönginn og tók nokkrar sjálfstæðar syrpur. Svipað og Vídalínssöfnuður gerði í gær fyrir utan Ísafold – Hrafnistu, í Garðabæ.
Sankt Nicolai-kirkja í Rønne bauð upp á ratleik á páskadag – eins og Laugarneskirkja og Langholtskirkja efndu til í samstarfi – fyrir fullorðna og börn. Alls voru sextán stöðvar í leiknum og verkefni öll tengd páskum og íhugun um þá, við hæfi allra í fjölskyldunni.
Þetta eru allt dæmi um viðbrögð og hugmyndauðgi. Allir vona að sjálfsögðu að samkomubanni verði aflétt sem fyrst – og fróðlegt verður að sjá hver skipuleg verður á því. Eitt skref í einu. En gott er að hafa hugmyndir í pokahorninu ef samkomubann stendur óbreytt og lengur yfir en fólk vonast til.
hsh/Kristeligt Dagblad
Ratleikur - Langholts-og Laugarnessöfnuðir efndu til hans