Enn af Dönum
Dómprófasturinn í Kaupmannahöfn, séra Anders Gadegaard, fékk hugmynd frá ítölskum starfsfélaga sínum, séra Don Giuseppte Corbari frá Lombardihéraðinu, um það hvernig hægt væri að bregðast við því þegar söfnuðurinn gæti ekki sótt kirkju vegna kórónuveirunnar. Hann lét þau boð út ganga hvort fólk vildi ekki senda þeim í Vor frúar dómkirkju (Vor Frue Kirke), sjálfu. Ekki stóð á viðbrögðunum. Sjálfurnar streymdu inn – þær voru prentaðar út og þeim raðað í bekkina í kirkjunni. Síðan hafði hann um hönd helgistund á skírdag sem var streymt og þar trónuðu sjálfurnar á bekkjum. Það var vitaskuld hljóður og prúður hópur, karlar og konur. Eflaust hefur margur fylgst með streyminu að heiman frá sér og notið þessarar sérstöku helgu stundar.
Þetta var táknrænt. Kannski gjörningur? Sýnir mikinn sveigjanleika í kirkjustarfi og hugmyndakraft – hvernig nútímatækni er notuð í aðstæðum sem með vissum hætti gefa fólki örlitla nasasjón af lífi fólks fyrr á öldum þegar lítið var hægt að ferðast um og hver var sæll í sinni sveit og bæ – eða þannig. En þó með allt öðrum hætti.
Annars er það um þennan séra Anders Gadegaard að segja að í fyrra kom út bók eftir hann sem heitir: Tro mod politik – Kristne værdier- byggesten til en politisk etik.
Það er danska forlagið Eksitstencen sem gefur út bókina sem og margar áhugaverðar um kirkju- og guðfræðileg málefni, sjá heimasíðu þess hér.
hsh/Kristeligt Dagblad
Sr. Ander Gadegaard blessar „sjálfu“-söfnuðinn
Ítalski klerkurinn sem gaf þeim danska hugmyndina um „sjálfu“-söfnuðinn,
séra Don Giuseppte Corbari frá Lombardihéraðinu - sjálfurnar á bekkjunum