Hve mörg horfa?
Mikill fjöldi kirkna um land allt streymdi frá helgihald nú um páskana. Úrval af helgistundum á netinu var fjölbreytilegt og augljóst að metnaður var lagður í gerð myndbanda enda þótt tæknin væri mismunandi. Þetta var streymiskirkjan sem hér hefur verið kölluð svo sem birtist á netinu.
Nú kann einhver að spyrja hvort mikið sé horft á streymið, bæði meðan á því stendur og eftir á. Oftast er hægt að sjá tölur við myndbandið á Facebook sem segja hve margir hafi horft á eins og þar stendur – það er þó ekki hægt til dæmis við vimeo.com. Tölurnar segja til um það hve margir „hafa opnað“ á streymið. Sum hafa örugglega fylgst með því öllu, aðrir að hluta til, og enn aðrir fleytt sér mishratt yfir það þegar streymi hefur verið lokið – staldrað kannski við hugleiðingu prestsins eða eitthvert tónlistaratriði. Kirkjan.is hefur séð ólíkar áhorfstölur á streymi frá kirkjum, allt frá tugum upp í þúsundir.
Þetta er í raun sérstakt rannsóknarefni sem kirkjan.is bendir á og það bíður síns tíma. Hvers vegna sumar helgistundir hafa fengið gríðarlega mikið áhorf og aðrar ekki. Tónlistarfólk kom fram í mörgum helgistundum með prestum, sumt var þjóðkunnugt og vinsælt, og hefur hugsanlega laðað fleiri að en aðrir. Svo má vera að streymið sé ákveðið nýjabrum og veki forvitni fólks sem hugsanlega dragi úr þegar streymi á helgistundum fer að verða algengara – og það ræðst líka af því hve lengi samkomubann stendur yfir – hvað mun gerast eftir 4. maí þegar hámarkið er komið í fimmtíu manns á samkomu? Þá er líka að líta á samfélagsaðstæður en minna er um að vera á þeim bænum nú um stundir eins og kunnugt er og því sækir fólk kannski í ríkari mæli en áður viðburði og afþreyingu á netinu.
Einhver gárunginn kynni að segja að ráðið til að fylla kirkjurnar sé að loka þeim! En svo er ekki. Streymið kemur aldrei í staðinn fyrir samfélag í kirkjunni, hið persónulega samfélag – öllum er það ljóst. Kvöldmáltíðin er til dæmis athöfn nálægðarinnar að öllu tilliti enda þótt tilraunir hafi verið gerðar með netaltarisgöngur sem skiptar skoðanir eru um.
Samkomubann á kórónuveirtutíma hefur dregið fram ótrúlegan kraft í kirkjunum og hugmyndauðgi. Þannig hefur neyðin kennt naktri konu að spinna eina ferðina enn.
„Þetta eru óvenjulegir tímar,“ segja margir réttilega og tíminn verður líka óvenjulegur þegar samkomubanni lýkur því að eflaust kemur í ljós að margt hefur breyst og mun breytast. Kannski munu söfnuðirnir hafa streymið til hliðar við almennt safnaðarstarf í einhverjum mæli – eða finna því einhvern allt annan farveg þegar samkomubanni verður aflétt. Tíminn leiðir það í ljós.
Páskastund í Tjarnaprestakalli
hsh