Skírnarkjólar skríða inn um lúgur
Ertu fædd/ur árið 2007? Kom pakki til þín í morgun? Er litskrúðugur bómullarhnoðri í pakkanum? Ekki óttast – þetta er ekki lifandi. Þetta er bara skírnarkjólsbolur sendur til þín.
Þó svo veiruinnrás hafi sett fermingar vorsins í kransaköku sjáum við glitta í fermingarlandið.
Þá er ekki seinna vænna að hefja fermingarundurbúning ársins 2021, barna fædd 2007.
Það er sumsé ekki til fermingarundirbúningur. En, það er til fermingarundurbúningur.
Ok, boomer!
Í ár var ákveðið að senda bol til allra barna fædd 2007, sem við kjósum að kalla uppfærðan skírnarkjól, til að minna á þennan viðburð sem framundan er hjá mörgum börnum. Skírnarkjólsbolurinn er hallærislega allrar athygli verður, eins og oft verður um gamla skírnarkjóla, sé ekki talað um fermingarfötin.
Það fá öll börn fædd árið 2007 þessa sendingu. Við vitum hins vegar að það eru ekki öll börn sem ætla sér að fermast. Sum börn voru ekki skírð, en ætla samt að fermast. Mörg börn hlakkar til á meðan önnur skilja ekki neitt í neinu með allt þetta tilstand. Borgaraleg ferming er valkostur sem sumir velja. Svo eru börn sem alast upp í öðrum sið og fagna sinni þroskavígslu öðruvísi, já eða alls ekki.
Allt til í þessu og gerir lífið líkt og geisla demantsins – óendanlega fallegt.
Við gerum ekki upp á milli barna, enda ekki til ein góð ástæða til þess. Það fá allir skírnarkjólsbol -hvorki meira né minna en 4100 börn. Með sendingunni eru síðan leiðbeiningar um að fara inn á ferming.is þar sem allar upplýsingar eru að finna um þessa sendingu og verkefnið framundan – ferming 2021!
Það er bara eitt sem skiptir máli og við gefum engan afslátt af; kærleikanum, hann fellur aldrei úr gildi!
Við viljum líka minna á með þessari sendingu að þó svo maður kjósi að fermast ekki, þá eru allir velkomnir í fermingarfræðslu. Í fermingarfræðslunni er fjallað um lífið, tilvistina og tilganginn. Margt spennandi sem gerist í fermingarfræðslunni, allar heimsins tilvistarspurningar krufnar!
Svo hlæjum við saman inn í sumarið í þessari litabombu! Ef það var einhvern tímann tími til þess manni minn!
Ef þú fékst ekki sendingu þá getur orsökin verið heimildarskráning vegna fjölpósta. Þá hvetjum við þig til að hafa samband við Biskupsstofu og við sendum þér kjól um hæl!
Hlökkum til að sjá alla!