Doktorsvörn í guðfræði á morgun
Á morgun, föstudaginn 24. apríl, mun sr. Bjarni Karlsson, verja doktorsritgerð við Guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands.
Ritgerðin ber heitið: Vistkerfisvandi og fátækt. Einkenni lífvænlegrar heimsmyndar, mannskilnings og fátæktarhugtaks í fjölmenningarsamfélagi síðnútímans. - Ritgerðin er á sviði siðfræðinnar.
Doktorsvörnin hefst kl. 9.00 og lýkur kl. 11.00.
Vegna kórónuveirufaraldursins verður fámennt við athöfnina sjálfa þar sem hún verður lokuð gestum en henni verður streymt á netinu, hér, og geta því fleiri en endranær fylgst með doktorsvörninni sem fer fram í hátíðarsal H.Í.
Ritgerðin dregur fram og gagnrýnir ýmsa ágalla nútímalegrar hugsunar um fátækt, heiminn, og stöðu mannsins í honum. Borin er saman hnattræn orðræða veraldlegra og trúarlegra aðila og rök færð fyrir samskilningi um gildi þess að leggja niður eindahyggju og mannmiðlægni en taka upp tengslahyggju og lífmiðlægni í heimsmenningunni.
Andmælendur við vörnina verða dr. Jón Ásgeir Kalmansson, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og dr. Sigríður Guðmarsdóttir, dósent við VID vitenskaplige høgskole í Noregi.
Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Sólveigar Önnu Bóasdóttur, prófessors í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru dr. Kolbeinn Hólmar Stefánsson, sérfræðingur á Hagstofu Íslands, og dr. Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands.
Dr. Rúnar Már Þorsteinsson, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, stjórnar athöfninni.
Kirkjan.is óskar sr. Bjarna Karlssyni góðs gengis í vörninni og til hamingju með lærdómsgráðuna.
Sr. Bjarni er fæddur 6. ágúst 1963 og lauk hann embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1990 og meistaragráðu í guðfræðilegri siðfræði 2007 frá sama skóla. Hann starfaði sem sóknarprestur í Vestmannaeyjum og Laugarneskirkju í Reykjavík árin 1991- 2014 en rekur nú eigin sálgæslustofu í Reykjavík.
hsh