Fátækir þurfa líka sápu og handspritt
Að fyrirmælum stjórnvalda hefur smiðjunum verið lokað tímabundið vegna Covid-19 heimsfaraldursins en starfsfólk UYDEL tekur þátt í aðgerðum sem miða að því að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar í borginni ásamt því að bregðast við afleiðingum faraldursins; bráðum skorti á matvælum og öðrum nauðsynjum. Höfuðáhersla er lögð á að koma matvælum, sápu og upplýsingum um faraldurinn til fólksins í fátækrahverfunum.
Stjórnvöld í Úganda ákváðu að koma mjólkurdufti, sykri, maísmjöli og baunum fyrst til sjúklinga, fólks með fötlun og munaðarlausra sem dveljast í 134 stofnunum í höfuðborginni og á landsvísu. UYDEL hefur tekið þátt í neyðaraðstoðinni frá byrjun apríl með því að lána tvo pallbíla og starfsfólk til matvæladreifingarinnar sem hefur nú náð til hátt í milljón íbúa.
Óttast er að smitum eigi eftir að fjölga mikið í Úganda en þann 24. apríl voru 74 staðfest smit skráð á vefsíðu heilbriðgðisyfirvalda í landinu, sjá hér.
Anna Kavuma, yfirfélagsráðgjafi UYDEL, segir að unga fólkið í fátækrahverfunum sé ekki nægilega meðvitað um forvarnir og að hreinlætisaðstaða sé af mjög skornum skammti í hverfunum líka. Anna segir stöðuna mjög slæma í samkomubanni. „Unga fólkið sem hefur fengið greitt fyrir vinnu sína frá degi til dags á nú ekki fyrir mat, hvað þá fyrir sápu eða handspritti,“ segir Anna og bætir við að aðgengi að vatni sé líka mjög takmarkað.
Innlendu hjálparsamtökin í Úganda (UYDEL) leggja nú höfuðáherslu á að koma í veg fyrir útbreiðslu Covid-19 í fátækrahverfum Kampala með upplýsingagjöf um nauðsyn handþvottar og fjarlægðarreglunnar. „Við erum að koma upp handþvottasvæðum með vatnsfötum, sápu og handspritti í hverfunum og við höfum fengið ungt fólk til að sauma andlitsgrímur líka,“ segir Anna.
Innlendu hjálparsamtökin í Úganda (UYDEL) óttast að aðstæður fólksins í fátækrahverfunum í Kampala eigi eftir að versna til muna næstu þrjá mánuðina og að efnahagslegra áhrifa muni gæta mun lengur. Samtökin segja að fjölskyldurnar muni ekki lengur hafa ráð á að senda börnin í skólann og að með aukinni örbirgð verði unglingsstúlkur enn líklegri til að verða fyrir misnotkun og kynferðislegu ofbeldi. Samtökin hafa þegar hafið átak í hverfunum þar sem varað er við þessari hættu og fólk hvatt til samstöðu á erfiðum tímum.
Hjálparstarf kirkjunnar heldur áfram að styrkja öflugt starf UYDEL í fátækrahverfum Kampala og gerir það með stuðningi frá hjartahlýju fólki á Íslandi.
Nánar um smiðjur Hjálparstarfs kirkjunnar og UYDEL
hsh/kó
Aðgengi að vatni er af skornum skammti í fátækrahverfunum
og þegar unga fólkið hefur ekki tækifæri til að vinna fyrir sér
á það hvorki fyrir mat, sápu né öðrum nauðsynjum