Hversu nálægt?
Samkomubannið mun standa yfir næstu mánuði í einhverri mynd.
Tveggja metra reglan um fjarlægð milli fólks mun standa sem gullin regla næstu mánuðina.
Sú regla hefur víða áhrif í kirkjustarfi en eftir er að móta allt starf með það í huga hér heima og víðar.
Og þó.
Vatíkanið segir að prestar eigi að veita fólki sem er að deyja af völdum kórónaveirunnar sakramenti sjúkra og altarissakramentið.
Erkibiskupinn í Kantaraborg segir að virða skuli fjarlægðarreglu.
Alvarlega veiku fólki og deyjandi er oft boðið hvort það vilji ræða við prest.
Prestur sem kemur í hlutverki sálusorgarans og huggarans til manneskju sem er að deyja vegna kórónusýkingar setur sjálfan sig í hættu. Lífshættu.
Það er hluti af starfinu, kölluninni, segir páfinn í Róm. Erkibiskupinn í York varar prestana hins vegar við að koma of nálægt kórónuveirusjúkum á dánarbeði. Sjúkrahúsprestarnir sjái um þau.
Nú sem aldrei er þörf á kirkjunni, slíkt heyrist víða.
Haft er eftir forstöðumanni stofnunar í siðfræði og læknisfræði við kaþólska Twickenham-háskólann í London að það vekji furðu hve margar kirkjur séu lokaðar og auk þess sé þverstæða fólgin í því að fullyrða að prestar geti ekki sinnt sjúkum og deyjandi í ljósi þess að sjálfur frelsarinn hafi gefið líf sitt fyrir mennina. Hann telur það rangt að banna prestum að sálusorga hina deyjandi við þessar aðstæður. En vitaskuld verði að útvega prestunum viðeigandi hlífðarklæði gegn veirunni. Hver prestur verði að gera þetta upp við sjálfan sig – hann segir jafnframt að neyðarástandið sé líka stór „áskorun“ fyrir presta til að sýna hugrekki og sjálfstæði.
Amerískur erkibiskup þeirra kaþólsku hefur lýst því yfir að syndafyrirgefningu sé ekki hægt að veita „online“ – eða rafrænt gegnum síma eða tölvu. Hins vegar megi athuga hvort hægt sé að afhenda það hlutverk lækni eða hjúkrunarfólki.
Margir prestar anglíkönsku kirkjunnar hafa lýst því yfir að þeir vilji vinna á sjúkrahúsum en forysta kirkjunnar hefur ekki heimilað þeim það enda þótt þeir kunni að fá hlífðarklæðnað eins og hjúkrunarfólkið. Þeir eru hvattir til að sýna fólki fremur siðferðilegan stuðning – sjúkrahúsprestar séu að störfum, því megi ekki gleyma. Sjúkrahúsprestarnir eru öllum hnútum kunnugir og færir á sínu sviði. Þeir eru í hlífðarklæðum við störf sín. Aðstæður eru vissulega sérstakar þar sem hinir deyjandi mega ekki fá heimsóknir frá sínum nánustu. Ekki er hægt að halda í hönd viðkomandi eða faðma. Það sé nöturleg staðreynd.
Skoðanir eru skiptar – en veiran kærir sig kollótta um það.
Hér heima eru það sjúkrahúsprestarnir sem hafa verið í fremstu víglínu úr röðum starfsfólks kirkjunnar þegar kemur að kórónafaraldrinum. Þeir hafa staðið sig með miklum sóma. Annað kirkjunnar fólk hefur kappkostað að halda starfi safnaðanna áfram eins og frekast hefur verið unnt og gripið oft til nýstárlegra aðferða – og nútímalegra – við boðun fagnaðarerindisins.
En metrarnir tveir, þeir verða áfram meginreglan. Virðum þá!
hsh/Kristeligt Dagblad