Syngjandi sumarkveðja
Þá kemur sjöunda sumarmyndbandið af ellefu sem sent er í gegnum vef kirkjunnar og nú er það umhverfisverndarsálmur - fylltur lofgjörð.
Tónmenntasjóður kirkjunnar hefur í gegnum árin stutt við nýsköpun sálma með því að panta sálma hjá ljóðskáldum og tónskáldum. Sálmarnir hafa verið frumfluttir á Sálmafossi í Hallgrímskirkju á Menningarnótt og margir þeirra hafa síðan verið valdir í næstu sálmabók.
Árið 2017 voru samstarfsmenn í kirkjum, prestar og organistar beðnir að taka höndum saman. Þeirra á meðal var samstarfsfólk í Laugarneskirkju, Arngerður María Árnadóttir, organisti og sr. Davíð Þór Jónsson.
Þau ákváðu að Arngerður skyldi fyrst semja lagið, en það er óvenjulegt því oftast eru lög samin við fyrirliggjandi texta.
Arngerður sagðist hafa viljað semja lag sem væri auðlært og hentaði vel til samsöngs, og þetta er fyrsta lag sem hún semur og leyfir öðrum að sjá. Davíð Þór fékk frjálsar hendur með efni textans, en tónskáldið var þó búin að ákveða að í lok hvers erindis skyldi syngja Hallelúja.
Kirkjan hefur með þessum sálmi eignast lofgjörð um sköpunina og áminningu til okkar um þá ábyrgð að umgangast hana með umhyggju og virðingu. Í raun og veru er þettaumhverfisverndarsálmur. Gott er að lesa umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar sem eftirrétt, hér er hún. Svo er til Græn kirkja.
Sálmurinn var frumfluttur á Sálmafossi sumarið 2017.
Sálmarnir ellefu sem hér eru kynntir fram til 4. maí hafa allir verið valdir í sálmabók kirkjunnar sem væntanleg er á þessu ári, og eru þeir meðal nýs efnis bókarinnar.
Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, og sálmabókarnefnd, völdu sálmana ellefu, sem ekki hafa birst áður í sálmabókum; ný íslensk lög og textar, ný lög við eldri sálma, nýjar þýðingar við þekkt erlend sálmalög, sálmar sem hafa fengið ný og söngvænni lög, sumarsálmar, nýr skírnarsálmur, sálmur um ábyrgð okkar á jörð og umhverfi svonokkuð sé nefnt.
Í svörtum himingeimi
Lag: Arngerður María Árnadóttir
Texti: Davíð Þór Jónsson
Flytjendur:
Félagar í Barbörukór Hafnarfjarðarkirkju:
Hulda Dögg Proppé
Hugi Jónsson
Þórunn Vala Valdimarsdóttir
Organisti: Guðmundur Sigurðsson
Upptaka í Hafnarfjarðarkirkju. Upptökustjórn: Friðjón Jónsson
hsh/mb
Í svörtum himingeimi heiðbjört skín
blá heillastjarna, dýrmæt sköpun þín.
Í okkar forsjá falin er
að fara með á allan hátt til dýrðar þér.
Hallelúja. Hallelúja.
Við höfum starfað ökrum hennar á
og okkur bjargir sótt í djúpin blá.
Hún veitir yndi, yl og skjól
og athvarf undir þinni mildu náðarsól.
Hallelúja. Hallelúja.
En núna bráðna jöklar, brotnar ís,
nú brenna skógar hér í paradís
og eitur þrúgar lög og láð.
Ó, ljúfi faðir, gefðu okkur þrek og ráð.
Hallelúja. Hallelúja.
Ó, faðir, gefðu okkur vilja´ og vit
að vernda hennar fagra stjörnuglit.
Gefðu´ okkur kærleik, kraft og trú
og kjark að standa vörð um allt sem elskar þú.
Hallelúja. Hallelúja.