Syngjandi sumarkveðja
Þá kemur níunda sumarmyndbandið af ellefu sem sent er í gegnum vef kirkjunnar og nú er það vor- og sumarsálmur.
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Sigurður Flosason hafa með samvinnu sinni skapað fjölda nýrra sálma sem hafa fengið mikla athygli að verðleikum.
Sigurður er einn færasti jazztónlistarmaður landsins og hefur komið víða við. Sent frá sér tugi geisladiska og nokkrir þeirra geyma kirkjulegan spuna. Þegar hann spinnur þráðinn með Aðalsteini Ásberg er næsta víst að sá þráður verður sleginn gulli, enda hann ekki aðeins rithöfundur heldur og tónlistarmaður. Slík samvinna skilar alltaf listaverkum. Þessi sálmur er eitt þeirra.
Árið 2010 kom út hjá Skálholtsútgáfunni, Sálmar á nýrri öld, nótnabók með 26 sálmum í kórraddsetningum og árið 2017 gaf útgáfufélagið Dimma út geisladisk með sama heiti þar sem kammerkórinn Schola Cantorum í Hallgrímskirkju, undir stjórn Harðar Áskelssonar, flytur alla sálma bókarinnar.
Þeir félagar gáfu öllum organistum landsins eintak af disknum til að kynna betur sálmana. Það var höfðingleg og mikilvæg gjöf sem hvetur til þess að syngja þessa fallegu sálma, bæði í kór og í safnaðarsöng.
Nokkrir sálma þeirra Aðalsteins og Sigurðar voru kynntir í Sálmum 2013, en þessi sem hér heyrist var ekki meðal þeirra. Hann hefur titilinn Tignarlegir tindar, en hefðbundið er í sálmabók að flokka sálma eftir upphafshendingu og því heitir hann Sólin geisla sína sendir yfir lönd.
Sálmarnir ellefu sem hér eru kynntir fram til 4. maí hafa allir verið valdir í sálmabók kirkjunnar sem væntanleg er á þessu ári, og eru þeir meðal nýs efnis bókarinnar.
Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, og sálmabókarnefnd, völdu sálmana ellefu, sem ekki hafa birst áður í sálmabókum; ný íslensk lög og textar, ný lög við eldri sálma, nýjar þýðingar við þekkt erlend sálmalög, sálmar sem hafa fengið ný og söngvænni lög, sumarsálmar, nýr skírnarsálmur, sálmur um ábyrgð okkar á jörð og umhverfi svonokkuð sé nefnt.
Flytjendur:
Félagar í Barbörukór Hafnarfjarðarkirkju:
Hulda Dögg Proppé
Hugi Jónsson
Þórunn Vala Valdimarsdóttir
Organisti: Guðmundur Sigurðsson
Upptaka í Hafnarfjarðarkirkju. Upptökustjórn: Friðjón Jónsson
hsh/mb
Sólin geisla sína
sendir yfir lönd,
dagsins línur dregur
Drottins milda hönd.
Vekur með þér vonir,
vermir þína sál,
fær þig til að fagna
fyrst um sumarmál.
Tignarlegir tindar,
trú sem aldrei dvín,
hátt í heiði ljómar
himna sólin þín.
Yfir öllu ríkir
andartaksins náð,
foldin fegurð skartar,
frjókorni er sáð.
Vötn og veiðilendur,
vallargrösin smá,
allt sem augað gleður
eflir mannsins þrá.
Upp til efstu hæða
ómar sálmalag:
Lofum undur lífsins,
lofum sérhvern dag.