Syngjandi sumarkveðja
Þá kemur tíunda sumarmyndbandið af ellefu sem sent er í gegnum vef kirkjunnar. Í dag er það sannkallaður sumarsálmur og meira en það: sköpunarsálmur - já, líka umhverfisverndarsálmur. Maður og Guð eru að störfum í sameiningu - og maðurinn elskar náttúruna og er fullur af von - og telur sér skylt að vernda sköpunina. Hér er sem sé einnig á ferð fagur lofgjörðaróður!
Árið 2007 var í fyrsta sinn haldinn Sálmafoss í Hallgrímskirkju. Hann var einn af viðburðum Menningarnætur í Reykjavík og það ár hluti Kirkjutónlistarhátíðar Hallgrímskirkju.
Hörður Áskelsson, kantor kirkjunnar, og þá söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, hafði forgöngu um þetta verkefni og einnig þá nýsköpun í sálmastarfi kirkjunnar að panta sálma sem frumfluttir voru á Sálmafossi.
Tónmenntasjóður kirkjunnar pantaði í þessu skyni fjóra sálma; búin voru til jafnmörg pör, þar sem karl og kona voru ýmist ljóðskáldið eða tónskáldið.
Eitt þessara listrænu para var Grýlan og presturinn! Það hlaut að vera spennandi!
Og svo kemur skáldið Hjörtur Pálsson að norðan. Íslenskufræðingur og fjölmenntaður menningarmaður sem víða hefur komið að málum þar sem mjúk og skynsamleg rödd visku og kúlturs þurfti að heyrast. Lærði svo guðfræði og tók vígslu. Og sálmakveðskapur bættist svo við ljóðasafn hans.
Þau tvö, Ragnhildur og sr. Hjörtur, standa hér í stafni sumarkveðjunnar á þessum maídegi. Og hefði sennilega hvorugu flogið það í hug fyrir margt löngu. En svona býður lífið upp á óvæntar innkomur á svið líðandi stundar!
Ragnhildur Gísladóttir, tónlistarkona, og sr. Hjörtur Pálsson, skáld og þýðandi. Sr. Hjörtur samdi sálminn um sumarið og þau Ragnhildur hittust og ræddu um efnistökin.
Útkoman er sumarsálmurinn - umhverfisverndarsálmurinn: Það sem augu mín sjá er þín sól.
Sálmurinn var birtur í bókinni Sálmar 2013 og verður í nýrri sálmabók.
Sálmarnir ellefu sem hér eru kynntir fram til 4. maí hafa allir verið valdir í sálmabók kirkjunnar sem væntanleg er á þessu ári, og eru þeir meðal nýs efnis bókarinnar.
Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, og sálmabókarnefnd, völdu sálmana ellefu, sem ekki hafa birst áður í sálmabókum; ný íslensk lög og textar, ný lög við eldri sálma, nýjar þýðingar við þekkt erlend sálmalög, sálmar sem hafa fengið ný og söngvænni lög, sumarsálmar, nýr skírnarsálmur, sálmur um ábyrgð okkar á jörð og umhverfi svo nokkuð sé nefnt.
Flytjendur:
Félagar í Barbörukór Hafnarfjarðarkirkju:
Hulda Dögg Proppé
Hugi Jónsson
Þórunn Vala Valdimarsdóttir
Organisti: Guðmundur Sigurðsson
Upptaka í Hafnarfjarðarkirkju. Upptökustjórn: Friðjón Jónsson
hsh/mb
Það sem augu mín sjá er þín sól
og þitt sumar um úthöf og lönd.
Ég á von og þú veist hvar ég stend,
ég á veröld sem talar sitt mál.
Ég elska, faðir, grasið grænt og gullið skin og hlýjan blæ,
ég elska, faðir, lind í mó og lítinn fugl við ský.
Mér skín við augum sköpun hrein og ný.
Með þér skapa ég umhverfið allt
sem er umgjörð míns lífs hér á jörð
og þú gafst mér þess auð og þess arð
og þess eyðing og vernd er mér skylt.
Ég elska, faðir ...
Blástu, vindur minn, þar sem þú vilt
um hinn víða og frjósama garð
því ég held þar í von minni vörð
hvort sem verða mun hlýtt eða kalt.
Ég elska, faðir ...
Lát anda þinn gæta hans, Guð,
og garðstíg hvern óma af söng.
Sjá, litrófið glóir. Ég geng
undir glitrandi regnbogans hlið.
Ég elska, faðir ...