Syngjandi sumarkveðja
Þá kemur ellefta og síðasta sumarmyndbandið sem sent er í gegnum vef kirkjunnar og nú er það lofgjörðarsálmur.
Saga sálms getur verið bæði áhugaverð og æsispennandi. Svo er vissulega með þennan sálm, How great Thou art.
Hann var valinn ástsælasti sálmur allra tíma í Bretlandi og árið 2001 var hann kosinn annar vinsælasti sálmurinn á heimsvísu, næst á eftir Amazing Grace, í könnun hjá tímaritinu Christianity Today.
Í Bandaríkjunum er sálmurinn talinn vinsælasti gospelsöngur allra tíma. Sjálfur Elvis Presley hafði sálminn á efnisskrá sinni og þekktir listamenn eins og Whitney Houston, Dolly Parton, Cliff Richards, The Blackwood Brothers og ungstjarnan Carrie Underwood hafa sungið sálminn við miklar vinsældir.
En hvaðan kemur hann?
Lagið er upprunalega sænskt þjóðlag, þó það hafi tekið nokkrum breytingum og sálmurinn er eftir Carl Boberg (1859-1940), saminn árið 1885.
Boberg var á göngu í litadýrð sumarsins þegar brast á þrumuveður, en síðan datt allt í dúnalogn, sólin skein, fuglar sungu og hann heyrði kirkjuklukkur hringja útfararstef. Um kvöldið samdi hann sálminn O Store Gud.
Sálmurinn var fyrst þýddur yfir á þýsku og þaðan á rússnesku. Enskur trúboði, Stuart K. Hine, sem dvaldi í Úkraínu heyrði sálminn og þýddi hann úr rússnesku yfir á ensku og bætti við tveimur versum.
Bandarískur prestur sem heyrði sálminn sunginn af heimamönnum í litlu þorpi á Indlandi árið 1954, hreifst svo að þegar heim var komið lét hann gefa sálminn út.
Sálmurinn hefur verið þýddur á meira en 25 tungumál, og til er íslensk þýðing eftir sr. Sigurð Pálsson, Ó Drottinn Guð er dásemd þína lít ég, en það eru aðeins þrjú vers.
Sr. Kristján Valur Ingólfsson gerði þessa þýðingu að beiðni sr. Bjarna Þórs Bjarnasonar, sóknarprests í Seltjarnarneskirkju, en Bjarni þjónaði á tímabili á Bretlandseyjum og kynntist þar vel ýmsum kjarnasálmum bresku kirkjunnar.
Þýðing sr. Kristjáns Vals er tileinkuð Seltjarnarneskirkju á 25 ára vígsluafmæli hennar og hún var frumflutt þar árið 2014.
Eftirfarandi texta skrifaði sr. Kristján Valur eftir að hann hafði lokið þýðingarvinnu sinni:
„Ég hafði aldrei heyrt þetta lag sungið fyrr en ég fyrir tilviljun rakst á upptöku með Witney Houston, sem ég hef enn mikið dálæti á. Hún dó 11. febrúar 2012, 49 ára gömul, af völdum eiturlyfja.
Ég tók eftir því að Elvis Presley, sem dó 18. ágúst 1977, 42 ára gamall, einnig af völdum eiturlyfja, söng þetta lag á síðustu tónleikunum sem hann hélt, 26. júní 1977.
Hefur þetta einhverja dýpri merkingu? Í rauninni ekki. En samt. Ef maður skoðar sögu þessa fólks þá var það einlægt í sínum söng. Söngurinn endurspeglar trú þeirra á þann Guð sem er mikill. Bið ég hann að hjálpa mér út úr þeim vanda sem ég bý við og hef kallað yfir mig? Nei, ég geri það ekki. Ekki vegna þess að ég treysti honum ekki til þess að gera það, heldur vegna þess að mig langar ekki til þess. Eitrið hefur blindað mig þannig að ég get ekki hugsað mér neitt líf án þess, og samt veit ég að það mun taka lífið frá mér. Þá er ekkert eftir nema að biðja um að þegar dauðinn kemur muni ég eignast þann frið sem ég þrái en finn ekki og hef gefist upp á að leita. Þá kemur Kristur:
Og svo um síðir, þegar Kristur kemur
og kallar mig og segir: Hjá mér vert,
í auðmýkt lýt ég honum öllu fremur
og elsku hans: Ó, Guð, þú mikill ert!“
Sálmarnir ellefu sem hér hafa verið kynntir allt til þessa dags, 4. maí, hafa allir verið valdir í sálmabók kirkjunnar sem væntanleg er á þessu ári, og eru þeir meðal nýs efnis bókarinnar.
Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, og sálmabókarnefnd, völdu sálmana ellefu, sem ekki hafa birst áður í sálmabókum; ný íslensk lög og textar, ný lög við eldri sálma, nýjar þýðingar við þekkt erlend sálmalög, sálmar sem hafa fengið ný og söngvænni lög, sumarsálmar, nýr skírnarsálmur, sálmur um ábyrgð okkar á jörð og umhverfi svonokkuð sé nefnt.
Flytjendur:
Félagar í Barbörukór Hafnarfjarðarkirkju:
Hulda Dögg Proppé
Hugi Jónsson
Þórunn Vala Valdimarsdóttir
Organisti: Guðmundur Sigurðsson
Upptaka í Hafnarfjarðarkirkju. Upptökustjórn: Friðjón Jónsson
hsh/mb
Ó, Drottinn Guð, ég lofa dásemd þína
sem dag hvern leggur þú í hendur mér.
Ég þakka lífið, vernd og vegferð mína
og vil í trú og auðmýkt fylgja þér.
Þá syngur Guð minn, sála mín til þín!
Þú mikill ert! Þú mikill ert!
Þá syngur Guð minn, sála mín til þín!
Þú mikill ert! Þú mikill ert!
Ég horfi yfir það sem hönd þín gefur
og hugsa um það allt sem skapar þú.
Ég heyri þrumur, veit hvar sólin sefur,
og sé hve máttur þinn er nærri nú.
Þá syngur Guð minn ...
Af fjallsbrún horfi yfir fagra dali,
við fuglasöng og hljóðan vængjaslátt,
og lækjarnið er ljúfur blærinn svali
þar lofar Drottins visku, náð og mátt.
Þá syngur Guð minn ...
Þá man ég hvað Guðs gæska varð að þreyja
er gaf sinn Son, sem byrðar mínar ber,
og synda minna vegna varð að deyja
en vekur mig til lífs á ný með sér.
Þá syngur Guð minn ...
Og svo um síðir, þegar Kristur kemur
og kallar mig og segir: Hjá mér vert,
í auðmýkt lýt ég honum öllu fremur
og elsku hans: Ó, Guð, þú mikill ert!
Þá syngur Guð minn ...