Síungt félag í 205 ár
Þó gamalt sé er það fullt af krafti.
Elsta félag landsins lætur engan bilbug á sér finna.
Hið íslenska biblíufélag var stofnað árið 1815. Eða fyrir 205 árum.
Það leggur aldrei árar í bát vegna þess að hlutverk þess er sígilt. Hafið yfir ár og tíð.
Hlutverk þess er að sjá til þess að Biblían sé ætíð á boðstólum. Ekki bara einni kynslóð heldur öllum.
Kirkjan.is fékk athyglisverða og góða sendingu frá félaginu sem sjá má hér neðar.
Undanfarin misseri hefur Biblíufélagið bent á þær miklu breytingar sem hafa orðið í því hvernig fólk nálgast lesefni og upplýsingar. Í síauknum og vaxandi mæli nálgast fólk lesefni í gegnum tölvur og snjalltæki. Þess vegna hefur Biblíufélagið gefið Biblíuna út í appi svo nú geta allir Íslendingar hlaðið niður Biblíunni í snjallsíma eða snjalltæki og verið þannig með Biblíuna í vasanum.
Atvinnuleikarar voru fengnir til að lesa inn Nýja testamentið svo nú er einnig hægt að hlusta á þann hluta Biblíunnar.
En Biblíufélagið vill halda áfram á þessari vegferð og auka aðgengi Biblíunnar á nýjum miðlum enn frekar. Forsvarsfólk félagsins vill hljóðrita meira af Biblíunni, útbúa Biblíuefni fyrir börn fyrir snjalltæki og nota allar leiðir sem færar eru til að koma Biblíunni þangað sem fólkið er.
Þetta er myndbandið sem kirkjan.is fékk sent og þar er allar upplýsingar að finna um verkefni Hins íslenska biblíufélagins í nútímanum.
Og hér er Biblían.
Kirkjan.is vill jafnframt vekja athygli á greinargóðri og stuttri bók eftir sr. Sigurð Ægigsson: Íslenska Biblían – ágrip rúmlega fjögurra alda sögu, og kom hún út árið 2015 þegar Hið íslenska biblíufélag var 200 ára.
hsh
Myndband Hins íslenska biblíufélags hefur slegið í gegn
Hið íslenska bibliufélag var stofnað í þessu húsi, Aðalstræti 10, Reykjavík, hinn 10. júlí 1815
Fyrir þau sem eru forvitin þá er upplagt að skoða hvernig texti er í eldri þýðingum
Tilboð - allir geta verið bakhjarlar