Söngur á tíma kórónufaraldurs
Mál málanna er tveggja metra reglan. Það heitir nálægðartakmörkun í auglýsingu hins opinbera. Þessi fjarlægð skal vera á milli „einstaklinga sem ekki deila heimili.“ Sjá hér.
Kirkjuathafnir falla undir fjöldasamkomur. Slíkar samkomur eru nú skilgreindar svo að átt sé við fleiri en 50 einstaklinga sem komi saman hvort sem í opinberum rýmum eða einkarýmum. Þessar nýju reglur gengu í gildi í dag, 4. maí, og standa til 1. júní n.k.
Svo er önnur hlið. Kórsöngurinn. Á streymi hefur sést að tveggja metra reglan er þar í hávegum höfð milli kórfélaga. Ekkert vandamál þar. Ekki hér á Fróni.
En voru dönsku vinir eru nú í bobba eftir því sem Kristeligt Dagblad greinir frá í morgun.
Danir eru smám saman að létta af ýmsum boðum og bönnum sem lögð hafa verið á vegna kórónufaraldursins. Nú er það opnun kirknanna sem er rædd. Dönsk sóttvarnaryfirvöld segja opnun á næsta leiti en þó með takmörkunum sem eru meðal annars þær að engir kórar syngi þar að svo stöddu – og það á einnig við um almennan söng. Söngurinn sé ótvíræð smitleið.
Margir danskir prestar eru reiðubúnir að „fórna“ söngnum svo kirkjur opni fyrr.
Sóttvarnaryfirvöld segja opnun kirknanna hafa í sér fólgna smithættu í „meðallagi“ en þegar fólk fari að opna munninn til söngs verði hún „mikil“. Þessar vangaveltur koma fram í minnisblaði til dönsku stjórnmálaleiðtoganna eftir því sem Kristeligt Dagblad segir.
Danskir eiga mörg skemmtileg orð í fórum sínum sem glata stundum þunga í þýðingu – og svo er nú er reyndar oft um mörg orð í þýðingu milli mála – eins og orðið „salmesult“. Nú segjast þau mörg vera orðin „salmesulten“. Þrái að koma saman og syngja sálma hárri raustu. Þeir eru líka „hudsultne“, geta ekki beðið eftir því að koma saman og njóta samvista með vinum og félögum.
Kristeligt Dagblad ræddi við nokkra presta. Þeir voru nokkuð einhuga um að opnun kirknanna með því skilyrði að söngur yrði hvíldur um stund væri ásættanlegur. Þó töldu margir guðsþjónustu án sálmasöngs vera fremur daufa (nema hvað!). Sálmasöngurinn væri náttúrlega bein lína og nokkurs konar ljósleiðari í andlegum málum. Einn prestur á Jótlandi sem staðið hefur fyrir undirskriftarsöfnun um að heimila guðsþjónustur aftur sagðist sættast á að söngurinn yrði látinn bíða ef strax mætti messa. Aðrir sögðu sálmana vera lykilatriði í guðsþjónustunum, ekki bara sönginn, heldur væri hið trúarlega innihald sálmanna órjúfanlegur þáttur guðsþjónustunnar. Margir héldu ró sinni og bentu á að þetta væri nú bara minnisblað til stjórnmálaleiðtoganna og það ætti eftir að koma í ljós hvað yrði. Enn aðrir sögðu minnisblaðið vera fremur óljóst og biðu frekari útskýringa.
Nú er bara að sjá hvað gerist.
En við Íslendingar syngjum af hjartans lyst og gleymum ekki metrunum tveimur. Það dugar - hafa góða opnun - eða að hver syngi bara með sínu nefi til að draga úr smithættu?
Kirkjan.is bendir svo að gefnu tilefni á myndböndin ellefu með syngjandi sumarkveðju þjóðkirkjunnar sem birst hafa að undanförnu á vef kirkjunnar. Þau hressa sál og huga!
hsh/KristeligtDagblad