Skólaslit Tónskóla þjóðkirkjunnar

23. maí 2020

Skólaslit Tónskóla þjóðkirkjunnar

Tónskóli þjóðkirkjunnar, nemendur, kennarar, stjórn og velunnarar

Í gær fóru fram skólaslit Tónskóla þjóðkirkjunnar í Hallgrímskirkju kl. 17.00.

Björn Steinar Sólbergsson, skólastjóri Tónskólans, stýrði athöfninni sem var fjölmenn.

Fjórir nemendur luku áfanga frá skólanum að þessu sinni. 

Þau luku prófum
            Hrafnkell Karlsson, lýkur kirkjuorganistaprófi 
            Erla Rut Káradóttir, Matthías Harðarson, Páll Barna Szabo ljúka kantorsprófi 
            Þá ljúka jafnframt þau Erla Rut og Matthías BA-gráðu í kirkjutónlist frá
            Listaháskóla Íslands

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, flutti ávarp. Ræddi hún um mikilvægi Tónskólans fyrir kirkjuna og óskaði nemendum til hamingju. 

Þá flutti og ávarp söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir. Ræddi hún um mikilvægi tónlistar í kirkjulegu starfi og vék meðal annars að því að torvelt væri að vera trúlaus í kirkjutónlistarnámi því svo samofið væri námið og hljóðfærið, söngurinn og orgelið, lofgjörð kirkjunnar.

Í skólaslitaræðu Björns Steinars kom fram að í skólanum hefðu verið sautján nemendur í vetur. Skólastarfið hefði gengið mjög vel á liðnum vetri og sömuleiðis samstarfið við Listaháskóla Íslands. Kennt er bæði í fjarnámi og staðbundnu námi.

Tónskóli þjóðkirkjunnar hefur verið til húsa í Grensáskirkju. Björn Steinar sagði að skólinn myndi flytja í næsta mánuði. Kennslan mun fara fram í Hjallakirkju í Kópavogi en stjórnsýsla skólans flytur í húsnæði Biskupsstofu við Katrínartún 4.

 

Um Tónskólann

Tónskóla þjóðkirkjunnar er ætlað að halda uppi kennslu í kirkjutónlist og litúrgískum fræðum og mennta organista til starfa við kirkjur landsins.

Boðið er uppá fjórar námsbrautir:

        Kirkjuorganistapróf sem veitir réttindi til starfa við minni kirkjur
        Kantorspróf sem veitir starfsréttindi sem organisti innan þjóðkirkjunnar
        Einleiksáfanga og BA-gráða í kirkjutónlist, í samvinnu við Listaháskóla Íslands 

Helstu námsgreinar skólans eru orgelleikur, litúrgískt orgelspil, kórstjórn, söngur, sálma- og helgisiðafræði, kirkjusöngfræði, kirkjufræði og orgelsmíði.

Skólinn hefur starfað allt frá stofnun embættis söngmálastjóra 1941 en hét þá Söngskóli þjóðkirkjunnar og starfaði í formi námskeiða. Síðar var nafni skólans breytt og hann rekinn sem níu mánaða tónlistarskóli.

Þau eru á forsíðumyndinni: Frá vinstri, fremri röð: Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Lenka Mátéová, kennari, Laufey Helga Geirsdóttir, kennari og starfsmaður á skrifstofu Tónskólans, Lára Bryndís Eggertsdóttir, kennari. Aftari röð: Sr. Hreinn S. Hákonarson, kennari, Björn Steinar Sólbergsson, skólastjóri, Hrafnkell Karlsson, útskriftarnemandi, Magnús Ragnarsson, kennari, Páll Barna Szabo, útskriftarnemandi, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Erla Rut Káradóttir, útskriftarnemandi, sr. Jón Helgi Þórarinsson, kennari, Matthías Harðarson, útskriftarnemandi, sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, formaður stjórnar skólans, Haukur Guðlaugsson, fyrrum söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.

hsh

Myndir með frétt: Hrefna Harðardóttir


Hrafnkell Karlsson, Páll Barna Szabo, Erla Rut Káradóttir og Matthías Harðarson 

  • Frétt

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Viðburður

  • Biskup

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls