Barnastarfið: „Sjáið þið loftið?“
Í Seltjarnarneskirkju er öflugt sunnudagaskóla- og æskulýðsstarf eins og víða í kirkjum landsins.
Það blés ögn á Seltjarnarnesi í morgun en það hamlaði þó ekki mörgum börnum frá því að koma til lokastundar í sunnudagaskólanum. Hlé verður gert á starfinu fram á haust – kirkjurnar auglýsa nú hver á fætur annarri hvenær síðasta barnastarfsstund verður hjá þeim – sunnudagaskólinn fer í sumarfrí.
Það var svo sannarlega góður andi í kirkju þeirra Seltirninga, börnin glöð og fullorðna fólkið tók einlægan þátt í þeirri gleði.
Söngvarnir voru við hæfi barnanna sem og fullorðinna barna. Hressilegir hreyfisöngvar með sterkri boðun og svo hið fallega lag, Liljan, i lokin.
Sveinn Bjarki Tómasson sló gítarinn og söng af hjartans lyst. Með honum voru og Þórdís Þórisdóttir og Dýri Guðmundsson.
Organistinn var á sínum stað, Friðrik Vignir Stefánsson, og Sigþrúður Erla Arnardóttir leiddi söng.
Sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur, talaði meðal annars um andann í prédikun sinni, heilagan anda. Náði ágætlega til barnanna og sérstaklega vegna þess að hann hafði fengi lánaða blástursvél. Það var stórsnjöll hugmynd hjá klerki.
Og hvað er nú blástursvél?
Jú, lítil nett dæla sem dælir lofti í blöðrur.
Þá var blásið í enn fleiri blöðrur og börnin fengu þær í hendur. Þau hafa eflaust hugsað um loftið í þeim sem þau sjá ekki og hinn heilaga anda.
Þegar guðsþjónustunni var lokið streymdi fólkið inn í safnaðarheimilið. Þar var boðið upp á rjúkandi heitar pylsur með öllu – eða því sem hver og einn vildi.
Og líka kaffi fyrir fullorðna fólkið. Ekki var annað að sjá en að reynt væri að hafa tveggja metra regluna í heiðri.
Semsagt, barnastarf kirknanna fer smám saman í sumarfrí eins og undanfarin ár – um næstu helgi er hvítasunnan.
Margt er á seyði hjá börnum yfir sumarið, námskeið og ferðalög. En kannski verður þetta sumar öðruvísi og einhverjum dettur kannski í hug að hafa fjölbreyttar sumarstundir í kirkjunum þar sem ólíklegt er að fólk sé á miklum þeytingi í útlöndum nú í sumar - hver veit?
hsh