Allt færist í fyrra horf
Allir hafa tekið eftir breytingum á útförum eftir að kórónufaraldurinn kom til sögunnar. Útfarir fóru fram að mestu í kyrrþey og lítið var haft við – til dæmis féllu erfidrykkjur svo að segja alveg niður og kórsöngur var í lágmarki. Algengt orðalag í auglýsingum var að „vegna aðstæðna í samfélaginu“ færi útförin fram með þessum hætti. Allir skildu það.
Frá og með gærdeginum mega koma saman allt að 200 manns. Enn er hvatt til að virða tveggja metra regluna svokölluðu eftir því sem aðstæður leyfa.
Kirkjan.is ræddi við Emilíu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Útfararstofu kirkjugarðanna, um breytta stöðu þessara mála.
Hún segir allt vera að færast smám saman til hins fyrra horfs. Útförum í kyrrþey fari fækkandi og fólk sé aftur farið að huga að erfidrykkjum. Þá sé tónlistarflutningur að aukast en mjög dró úr honum á veirutímanum.
Emilía segir starfsfólk Útfararstofunnar hafa unnið á tveimur vöktum sem ekki hittust. Fólk hafi verið mjög samhent og ábyrgt.
„Aðstandendur fólks sem lést af völdum kórónuveirunnar sýndu mikið æðruleysi,“ segir Emilía en heimsóknir til þeirra sem lágu banaleguna voru mjög takmarkaðar. Þá voru kistulagningar með þeim hætti að kistur voru lokaðar. Stundum þurfti að hafa tvær kistulagningar svo öll þau nánustu gætu verið viðstödd – það sama var að segja um nærverustundir.
Tveggja metra reglunni er mætt með því að í Fossvogskirkju mega vera 170 manns niðri og 30 uppi, í kapellu 40 manns, og 15 í bænhúsinu.
Útfarir fara fram á hverjum degi kl. 11.00, 13.00 og 15.00. Þar á milli eru kistulagningar.
Emilía hefur starfað hjá Útfararstofu kirkjugarðanna frá 2016 og er öllum hnútum kunnug á vinnustaðnum – komið nálægt öllum þáttum starfseminnar.
Emilía er þakklát fyrir að enginn smitaðist af kórónuveirunnar á vinnustaðnum og horfir björtum augum til sumarsins.
hsh
Gróður er farinn að taka við sér fyrir utan kapelluna í Fossvogi