Sumarfrí er ekki sjálfgefið
Hjálparstarf kirkjunnar réttir nú fram hjálparhönd til efnalítilla fjölskyldna sem hafa stálpuð börn og unglinga og vilja fara í sumarfrí innanlands nú í sumar. Samið hefur verið ýmsa aðila í ferðaþjónustunni í sambandi við gisti- og afþreyingarmöguleika.
Margir hafa ekki efni á því að fara í sumarfrí með fjölskyldu sína innanlands því það getur verið býsna kostnaðarsamt og sérstaklega ef börnin eru mörg. Hvatt hefur verið til ferða innanlands og nokkuð öruggt að mikil umferð verður á mörgum stöðum á landinu og sérstaklega þeim sem hafa upp á mikla og einstæða náttúrufegurð að bjóða.
Kirkjan.is hafði samband við Vilborgu Oddsdóttur, félagsráðgjafa hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, og spurði hvernig gengi með þetta verkefni.
„Það eru ellefu búnir að sækja um,“ sagði hún hress í lund, „allt fjölskyldufólk sem langar til að ferðast um landið í sumar.“
„Hvar er vakin athygli á þessu?“ spurði kirkjan.is
„Við höfum hengt upp auglýsingar þar sem hópastarf okkar fer fram og eins höfum við hringt í fólk sem við vitum að býr við fátækt og langar í sumarfrí,“ svarar Vilborg. Hún segir vinsælustu ósk fólksins vera að fá gistibíl (camp-car) en í þeim stærstu er svefnpláss fyrir allt að fimm manns. Þá finni fólkið sig frjálsara og geti ekið á milli tjaldsvæða og börnin notið þeirra leiktækja sem mörg þeirra bjóða upp á.
Þetta kostar vissulega fé en Hjálparstarfið sækir um aðstoð í ýmsa sjóði og til einstaklinga til að geta sinnt þessu sérstaka verkefni. Ráðgerð er að styðja við bakið á þetta tólf eða fimmtán fjölskyldum, fer þó eftir því hvernig gengur að safna.
Kirkjunnar fólk er beðið um að vekja athygli á þessu fallega hjálparframtaki Hjálparstarfsins.
Víst er að vel heppnað sumarferðalag efnalítilla fjölskyldna mun auka gleði þeirra og fylla þau bjartsýni.
Það eru félagsráðgjafar Hjálparstarfsins sem stýra þessu og hægt er að ná í þá í síma: 528-4400 eða senda tölvupóst á vilborg@help.is
hsh
Heimasíða Hjálparstarfs kirkjunnar