Rás 1: Biskupar á hrakhólum
Kirkjan.is vekur athygli á útvarpsþætti sem endurfluttur verður í fyrramálið, hvítasunnudag, á Rás 1 í Ríkisútvarpinu og heitir: Biskupar á hrakhólum. Er þetta fyrri þáttur af tveimur. Umsjónamaður er Þorgrímur Þráinsson og voru þættirnir fyrst á dagskrá fyrir 25 árum. Þátturinn hefst kl. 7.03.
Biskupar hafa búið á ýmsum stöðum í Reykjavík, ýmist í eigin húsnæði, leiguhúsnæði eða embættisbústað.
Árið 1806 varð öðlingurinn og góðmennið sr. Geir Vídalín, biskup, gjaldþrota. Hann fluttist frá Lambastöðum á Seltjarnarnesi og í eitt húsa Innréttinganna, nú Aðalstræti 10. Þar var Hið íslenska biblíufélag meðal annars stofnað árið 1815. Það hús var löngum kallað Biskupsstofa.
Sr. Steingrímur biskup bjó í Lauganesi.
Eftirmaður hans, sr. Helgi G. Thordersen, bjó líka í Laugarnesinu en fékk leyfi 1856 til að flyta í Lækjargötu 4 og var sú gata stundum kölluð Heilagsandastræti því að þar bjuggu þeir biskupinn og dómkirkjupresturinn. Dr. Pétur Pétursson bjó í Austurstræit 16. Sr. Hallgrímur Sveinsson bjó við Vesturgötu 19. Sr. Þórhallur Bjarnason í Laufási við Laufásveg og dr. Jón Helgason í Tjarnargötu 28. Sr. Sigurgeir Sigurðsson bjó í Gimli við Lækjargötu – áður á Sólvallagötu og í Vesturhlíð. Sr. Ásmundur Guðmundsson bjó á Laufásvegi 75.
hsh