Helgihald og útivist
Guðsþjónustuhald var fjölbreytilegt í gær. Auk hefðbundins helgihalds var farið í gönguguðsþjónustur og skógarguðsþjónustur – og eflaust má tína til fleiri útgáfur.
Það sýnir sveigjanleika í helgihaldi sem er nauðsynlegur í nútímanum.
Kirkjufólk kann mjög vel að meta tilbreytingar í helgihaldi og lítur á þær sem viðbót við hið hefðbundna. Þá dregur helgihald sem er með öðrum brag en venja er margt fólk að sem annars tekur kannski lítinn þátt í kirkjulegu starfi – eða er jafnvel fráhverft því. Slíkt helgihald getur þannig verið heppilegur farvegur fyrir leitandi fólk og þau sem standa í dálítilli fjarlægð frá kirkjunni.
Allt þetta helgihald fer fram undir merki krossins.
Við hellinn í Hellisskógi skammt frá Selfossi fór fram helgihald sem sr. Guðbjörg Arnardóttir hafði umsjón með. Þar söng kirkjukórinn vor- og sumarsálma og önnur lög. Edit A. Molnár stjórnaði söngnum. Einn kórfélaganna lék á túbu og svo var boðið upp á skógar- og messukaffi eftir stundina.
Í Brautarholtssókn á Kjalarnesi var gengið frá Brautarholtskirkju, farin gamla þjóðleiðin í Esjuhlíðum og ferðinni heitið að útialtarinu við Esjuberg. Numið staðar á tveimur stöðum, Fólkvangi og Skrauthólum, farið með bæn og ritningarvers – og veitingar þegnar á síðarnefnda staðnum. Gangan tók tvo og hálfan tíma. Við altarið var stutt helgistund í umsjón sr. Örnu Grétarsdóttur, félagar úr kór Reynivallaprestakalls söng – stjórnandi var Guðmundur Ómar Óskarsson. Í lokin var boðið upp á kaffi og kleinur.
Þau á Seyðisfirði voru með göngumessu í samstarfi við gönguklúbb bæjarins og heilsueflandi samfélag. Þetta var þátttaka í hreyfiviku og helgihaldið var af því tilefni flutt út í Guðs græna náttúruna. Gengið var inn að Fjarðarseli og á leiðinni voru sungnir sálmar og lesnir ritningarlestrar. Messukaffi var inni í Fjarðarseli og var fólk hvatt til að koma með kaffi á brúsa og meðlæti. Helgihaldinu stýrði sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir.
Þau sem ekki treystu sér til að ganga í göngumessunum voru hvött til að mæta á staðinn um líkt leyti og göngufólkið kom. Allt gekk það eins og í sögu.
Þátttakendur voru mjög ánægðir með helgihaldið við hellinn í Hellisskógi, Esjubergi og Fjarðarseli og allir á einu máli um að helgihald og útivist fari prýðilega saman.
hsh
Helgihald í Hellisskógi
Leikið á túbu í við hellinn sem Hellisskógur er kenndur við
Helgihald í Fjarðarseli