Krossarnir farnir

9. júní 2020

Krossarnir farnir

Þessir krossar stóðu við Kögunarhól, Suðurlandsveg, alls 52 að tölu

Árið 2006 voru reistir 52 stórir krossar við áningarstaðinn hjá Kögunarhóli rétt vestan við Selfoss. Hvítir krossar sem vegfarendur tóku vel eftir þegar þeir óku þar hjá. Krossarnir stóðu allþétt saman og veður og vindar léku um þá allan ársins hring.

Þegar kirkjan.is ók þar framhjá í gær var enga krossa að sjá við Kögunarhól. Þeir voru horfnir. Þar var aðeins að sjá mörg vegavinnutæki og verkamenn að störfum.

Tvöföldun Suðurlandsvegar stendur yfir. Þarft verk og gott.

En af hverju voru þessir krossar settir upp og hvað veldur því að þeir eru nú horfnir?

Leiðin milli Hveragerðis og Selfoss - og Reykjavíkur og Selfoss - hefur kostað nokkur mannslíf. Þetta er hættulegur hluti af Suðurlandsvegi.

Kærleiksrík hugsun Það var maður nokkur að nafni Hannes Kristmundsson, garðyrkjumaður í Hveragerði, sem tók það upp hjá sjálfum sér að koma þessum krossum upp til minningar um þau sem höfðu farist í umferðinni á Suðurlandsvegi á leið til Selfoss og í þeim hópi var meðal annars sonur hans.

Krossarnir voru settir upp við látlausa og fallega athöfn í desember 2006 sem sr. Úlfar Guðmundsson þáverandi prófastur Árnesinga stýrði.

Hugsun Hannesar var sú að krossarnir gætu verið fólki ábending um að leiðin um þennan veg gæti verið hættuleg og að ökumenn þyrftu að sýna varkárni við aksturinn. Hannes vildi líka láta lýsa veginn upp. Krossarnir yrðu svo teknir niður þegar tvöföldun vegarins væri lokið.

Það vita allir að krossinn er trúartákn. Tákn upprisu og eilífðar. En kross er líka merki um burtför úr heiminum, dauða.

Tvöföldun vegarins er hafin og henni lokið á köflum. Kirkjan.is spurðist fyrir um málið hjá Vegagerðinni á Selfossi og fékk þau svör að krossarnir hjá Kögunarhóli hefðu verið teknir niður því að þeir voru inni á framkvæmdasvæði þar sem verið er að undirbúa tvöföldun þessa kafla Suðurlandsvegar.

Hvar eru krossarnir?

Kirkjan.is ræddi við Birki Hrafn Jóakimsson, verkfræðing hjá Vegagerðinni, sem hefur yfirumsjón með þessum öðrum áfanga á breikkun Suðurlandsvegarins, og spurði hann út í krossana. „Jú, við gáfum verktakanum fyrirmæli um að taka þá niður,“ sagði Birgir Hrafn, „við tókum krossana í geymslu og það verður ákveðið síðar hvað verður gert við þá.“

Hann sagði ýmsar hugmyndir hafa komið fram um hvað gera ætti við krossana. Ein hugmynd væri sú að koma þeim fyrir ofar í Kögunarhólnum. En ekkert væri ákveðið, þetta yrði gert í samráði við þá sem hefðu með krossana að gera. Það sama á við um stuðlabergsstöpulinn með skiltinu.

Stefnt er að því að ljúka þessum öðrum áfanga Suðurlandsvegar haustið 2023. 

Krossarnir við Kögunarhól voru gott framtak og bak við það bjó falleg hugsun og kærleiksrík. Hannes lést fyrir sjö árum, blessuð veri minning hans. Nú verður Suðurlandsvegur smám saman öruggari en áður og ekki eins mikil þörf á þessum sérstöku krossum sem blöstu svo lengi við frá veginum. En kannski fara þeir ofar í Kögunarhólinn í framtíðinni - aldrei að vita. En alltaf verður þó þörf á að vegfarendur aki þar um með gætni og varúð.

hsh


Stuðlabergsstöpullinn sem stóð hjá áningarborðinu við Kögunarhól


Hér voru krossarnir og áningarborðið - og stuðlabergsstöpullinn


  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls