Messuhald í útvarpi
Í sveitum og bæjum um allt land eru kirkjur þar sem fram fer trúar- og menningarstarfsemi í þeim mæli sem hvert byggðarlag kýs sér. Öll eru þessi guðshús notuð til messuhalds og kirkjulegra athafna. Hvert og eitt þeirra segir frá sínu samfélagi í orðum og tónum. Í helgihaldi og menningarstarfsemi.
Útvarpsmessur eru gluggi sem lokið er upp og öllum landsmönnum boðið að hlýða á boðun guðsorðs og menningu í byggðarlögum sem allir kannast við en fæstir hafa kannski setið þar á kirkjubekk.
Undanfarin sjö ár hefur hljóðupptökubíll Ríkisútvarpsins brunað út á land í þann mund sem farfuglarnir streyma til landsins. Hljóðnemum og köplum hefur verið komið fyrir í einni kirkju og þangað hafa söfnuðir komið og flutt sína messu. Þessar guðsþjónustur hafa verið fluttar á Rás 1 (rás hins hugsandi manns) yfir sumartímann.
Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, hefur haldið móðurlegri og styrkri hendi yfir öllu skipulagi en hljóðar hendur tæknimannsins Einars Sigurðssonar hafa haldið um tæknimálin.
Allt er breytingum háð. Kórónuveiran gerði margvíslegan usla sem öllum er kunnur. Það stóð til að taka upp ellefu messur í Austurlandsprófastsdæmi en veiran var snöggtum þéttari en Austfjarðarþokan og setti það strik í reikninginn svo að þeim upptökum varð að fresta um ár.
Nú voru góð ráð dýr. Engum kom til hugar að slá af útvarpsmessur sem hafa verið í útvarpi frá upphafi vega. Leitað var til frækinna Suðurnesjamanna sem hafa sótt margan sjóinn svo sæmd er af og voru þeir fúsir til að hlaupa í skarðið. Hvað annað. Enda blóð þeirra „ólgandi sem hafið og eldfjallaglóð.“
Sandgerðiskirkja varð fyrir valinu, fallegt hús með góðu Johannus orgeli og flygli – og hljómburður góður. Þar voru hljóðritaðar fimm messur í byrjun júnímánaðar og þeim verður útvarpað á tímabilinu 28. júní til 9. ágúst.
28. júní er messa frá Keflavíkurprestakalli: Sr. Erla Guðmundsdóttir, sr. Fritz Már Jörgenson. Arnór Vilbergsson er organisti. Kór Keflavíkurkirkju syngur.
5. júlí er messa frá Útskálprestakalli: Sr. Sigurður Grétar Sigurðsson Keith Reed er organisti. Kór Útskála- og Hvalsnessókna syngur.
12. júlí er messa frá Njarðvíkurprestakalli: Sr. Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir, sr. Baldur Rafn Sigurðsson. Stefán Helgi Kristinsson er organisti. Kór Njarðvíkurkirkju syngur.
19. júlí er messa frá Tjarnaprestakalli: Sr. Bolli Pétur Bollason. Kári Allansson er organisti. Kór Kálfatjarnarkirkju syngur.
9. ágúst er svo messa þriggja prestakalla eða Keflavíkur-, Njarðvíkur- og Útskálaprestakalla. Organisti er Arnór Vilbergsson organisti og gospelkórinn Vox Felix syngur en kórinn er sameiginlegt verkefni á þeirra vegum.
Hlustendur eiga því von á fjölbreyttum og vönduðum messum frá söfnuðum Suðurnesja í sumar, en einnig verður útvarpað frá Skálholtshátíð, Reykholtshátíð og Hólahátíð eins og venja er til.
mb/hsh
Útvarp Reykjavík, útvarp Reykjavík...
Suðurnesjaklerkar með Vox Felix
Útskálaklerkur sr. Sigurður Grétar með sínu fólki
Keflavíkurklerkar og kirkjukórinn þeirra
Fólk úr Tjarnaprestakalli með klerki sínum
Það var nú alltaf góður hljómur í þessum ferðaútvarpstækjum á sínum tíma
- nú eru þau eftirsótt og tilheyra „retro-tískustraumi“