Tónskóli þjóðkirkjunnar flytur
Nú stendur yfir flutningur Tónskóla þjóðkirkjunnar úr Grensáskirkju og yfir í Hjallakirkju í Kópavogi.
Kennsluaðstaða í Hjallakirkju er mjög góð og þar verður gott aðgengi að bókasafni og bókakosti skólans. Einn af kennurum skólans, Lára Bryndís Eggertsdóttir, er organisti í Hallakirkju.
Stjórnsýsla skólans mun hins vegar flytjast fyrst um sinn í húsnæði Biskupsstofu í Katrínartúni 4.
Skólastjórinn, Björn Steinar Sólbergsson, og Laufey Helga Geirsdóttir, ritari skólans og einn af kennurum hans, standa um þessar mundir í ströngu, og fylla hvern kassann á fætur öðrum. Kostur við að flytja er sá að þá er líka tekið til.
Tónskólinn hefur verið um árabil í Grensáskirkju en þangað flutti hann úr Sölvhólsgötu.
„Ég er mjög ánægður með aðstöðuna í Hjallakirkju - fallegt og bjart húsnæði,“ sagði Björn Steinar við tíðindamann kirkjunnar.
Myndin með fréttinni var tekin þegar leigusamningur við Hjallakirkju var undirritaður s.l. miðvikudag - frá vinstri: Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Guðmundur Þór Guðmundsson, skrifstofustjóri Biskupsstofu, Andrés Jónsson, formaður sóknarnefndar Hjallakirkju og Björn Steinar Sólbergsson, skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar. Myndina tók Ragnhildur Benediktsdóttir.
hsh
Tónskólinn flytur - bananakassar bjarga öllum flutningum