Keltnesk útiguðsþjónusta á Esjubergi
Undanfarin ár hefur helgihald verið á Esjubergi á Kjalarnesi og oft í tengslum við Kjalarnesdaga í júnímánuði ár hvert.
Vegna kórónuveirufaraldursins voru Kjalarnesdagar blásnir af. En ákveðið var þó að hvika ekki frá helgihaldinu og var því haldin í morgun keltnesk útiguðsþjónusta á Esjubergi í hlýju og góðu veðri.
Að lokinni guðsþjónustu bauð Sögufélagið Steini upp á kaffi, ávaxtasafa og kleinur.
Fjöldi fólks sótti guðsþjónusta og naut útivistarinnar á hinum fagra stað þar sem útialtarið er.
Í þetta sinn var guðsþjónustan á vegum Sögufélagsins Steina, Reynivalla- og Lágafellsprestakalla sem eru á samstarfssvæði. Prestarnir sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur, og sr. Arndís Bernhardsdóttir Linn, frá Lágafellssókn, þjónuðu fyrir altari. Kirkjukór Reynivallaprestakalls söng en honum stýrir Guðmundur Ómar Óskarsson, organisti. Ritningarlestrar voru í höndum Hrefnu Sigríðar Bjartmarsdóttur, formanns Sögufélagsins Steina og Bjarna Sighvatssonar, varaformanns félagsins. Einnig las sr. Gunnþór Þ. Ingason.
Það eru um fimm ár liðin frá því að hafin var vinna við útialtarið. Fjölmargir hafa lagt málinu lið. Stefnt er að því að vígsla altarisins fari fram í haust en þá verður kominn upp tveggja metra keltneskur kross sem rís upp úr altarinu.
Útialtarið við Esjuberg verður mjög líklega eftirsóttur helgistaður. Hann er við sama afleggjara og lagt er upp á Kerhólakamb Esju sem er vinsæl gönguleið.
hsh
Bjarni Sighvatsson, varaformaður Sögufélagsins Steina, las ritningarlestur
Vel auglýst við þjóðveg nr. 1, Vesturlandsveg