Hljóð alvörustund

30. júní 2020

Hljóð alvörustund

Merki hinna kristilegu bifhjólasamtaka

Í dag kom bifhjólafólk saman við höfuðstöðvar Vegagerðarinnar við Borgartún í Reykjavík. Boðað hafði verið til samstöðufundar vegna hins hörmulega slyss á Kjalarnesi þar sem tveir fórust er bifhjól og húsbíll skullu saman.

Það var margt fólk sem kom saman í porti Vegagerðarinnar og alvörusvipur á andlitum allra. Hvert glæsihjólið á fætur öðru rann inn í portið og menn stigu af baki hljóðir og prúðir.
Hjálmum bifhjólamanna var raðað í stórt hjarta á hvítan dúk á stéttinni fyrir framan höfuðstöðvar Vegargerðarinnar. Síðan stóð fólk þögult í eina mínútu. Að því búnu bauð Vegagerðin þeim sem vildu að þiggja kaffisopa og ræða málin.

Þau eru mörg bifhjólasamtökin og þeim fylgir ákveðin og sérstök menning. Leðurfatnaður, sítt ár, lokkar í eyrum og klútar - o.fl. Samtök þeirra bera nöfn á borð við Víkingar, Sniglar, Griðungar, Fenrir, Þeyr, Bifhjólasamtök lýðveldisins.

Svo eru kristileg bifhjólasamtök sem hafa verið starfandi frá árinu 2008. Þau heita: Christian motorcyclist association – Riding for the son.

Christian motorcyclists association – Riding for the son Kirkjan.is ræddi við formann þeirra í porti Vegagerðarinnar, Jón Þór Eyjólfsson. Hann sagði að þeir væru ellefu í klúbbnum og hittust reglulega. Læsu upp úr Biblíunni og færu með bænir. Ættu svo gott samfélag, spjall um bifhjólin og hvaðeina. Það sama sagði annar félagi í samtökunum, Björgvin Óskarsson sem þar var og staddur. Félagið er hluti af alþjóðlegum samtökum sem á annað hundrað þúsund félagar eru í

Síðan héldu menn úr porti Vegargerðarinnar og það drundi í hjólunum. Efst í huga allra hefur eflaust verið hlý hugsun til aðstandenda bifhjólafólksins sem fórst og að slys eins og það sem varð á nýmalbikuðum vegarkafla á Kjalarnesi mætti ekki endurtaka sig.

hsh


Hljóð stund í porti Vegagerðarinnar


Hópur lagði hjálma sína á hvítan dúk - þeir mynduðu hjarta


    hateigskirkja.jpg - mynd

    Samverustund syrgjenda á aðventunni

    13. nóv. 2024
    Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
    kirkjanisaugl.jpg - mynd

    Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

    12. nóv. 2024
    Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
    Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

    Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

    08. nóv. 2024
    ...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls