Allir vinna – kirkjan líka!

1. júlí 2020

Allir vinna – kirkjan líka!

Gott að vita hvar Skatturinn er til húsa ...

„Allir vinna“, var og er þjóðarátak sem ýtt var úr vör undir þessu hvetjandi heiti með margvíslegri merkingu. Markmiðið var að auðvelda framkvæmdir og hvetja til þeirra sem og að skapa störf í erfiðu árferði. Ljóst er að allir hafa hag af því.

Alþingi samþykkti í gær frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Um er að ræða endurgreiðslu skattsins til fleiri aðila en áður til að hvetja til aukinna framkvæmda með það markmið í huga að efnahagslífið njóti góðs af því þá upp er staðið. 

Þjóðkirkjan og söfnuðir hennar eru meðal annarra í þeim hópi sem geta leitað eftir endurgreiðslu samkvæmt lögunum en í greinargerð með frumvarpinu stendur svo: 

Jafnframt er lagt til að íslenska þjóðkirkjan njóti samsvarandi réttar til endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað sem og þjóðkirkjusöfnuðir hér á landi, sbr. lög nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Í 2. mgr. 2. gr. þeirra laga segir að þjóðkirkjan, einstakar sóknir og stofnanir hennar njóti sjálfstæðrar eignhelgi og komi fram sem sjálfstæðir aðilar gagnvart almannavaldinu eftir því sem við getur átt.

Frumvarpið má sjá hér. 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, 1. gr.: 
Eftirtöldum aðilum skal endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra, auk virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíku mannvirki:
1. Mannúðar- og líknarfélögum.
2. Íþróttafélögum, heildarsamtökum á sviði íþrótta og héraðs- og sérsamböndum.
3. Björgunarsveitum, landssamtökum björgunarsveita og slysavarnadeildum og einstökum félagseiningum sem starfa undir merkjum samtakanna.
4. Félögum og félagasamtökum sem sinna æskulýðsmálum.
5. Þjóðkirkjunni, þjóðkirkjusöfnuðum og öðrum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum.


Hvað þýðir þetta?

Eins og kunnugt er var tímabil fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts lengt fram í desember á þessu ári og prósentan hækkuð úr 60% í 100%. Þetta var liður í aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við efnahagsástandinu af völdum kórónuveirunnar. Frumvarpið sem samþykkt var í gær nær til fleiri aðila en áður og þá meðal annars til Þjóðkirkjunnar og þjóðkirkjusafnaða vegna vinnu sem er unnin á þessu tímabili, þ.e. frá 1. mars á þessu ári og út árið. Hægt er semsé að sækja um endurgreiðslu á virðisaukaskatti (100%) vegna vinnu sem unnin er á byggingarstað hvort hvort heldur við byggingu, viðhald eða endurbætur á húsum í eigu safnaðanna eða öðrum mannvirkjum. Þetta á líka við um greiðslur fyrir hönnun, eftirlit með byggingum o.s.frv.

Sótt er um endurgreiðslu hjá Skattinum (sjá nánar hér) gegn framlögðum reikningum.

Þarf ekki að mála kirkjuna? Er kominn fúi í gluggakarmana? Steypan að gefa sig?
Þessi lagabreyting getur orðið söfnuðum hvatning til athafna því að endurgreiðsla á virðisaukaskatti lækkar allan kostnað sem honum nemur. Þess vegna er þetta kjörið tækifæri til að hrinda ýmsu í framkvæmd sem hefur verið á prjónunum eða dregist úr hömlu.

Eins og önnur samþykkt frumvörp til laga tekur umrætt frumvarp gildi þegar það hefur birst í A-deild Stjórnartíðinda.

hsh


  • Menning

  • Nýjung

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Umsókn

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls