Samið við organista
„Þjóðkirkjan er syngjandi kirkja... Hið hefðbundna hljóðfæri kirkjunnar er orgelið...“ svo segir í tónlistarstefnu þjóðkirkjunnar sem endurnýjuð var í fyrra.
Organistar gegna þar lykilhlutverki og kirkjan rekur meðal annars Tónskóla sem sér um menntun organista.
Verður er verkamaðurinn launa sinna – og verður er organistinn fyrir hverja nótu sem hann slær og meira til!
Nýbúið er að undirrita kjarasamning milli Launanefndar þjóðkirkjunnar og Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍO/organistadeildar FÍH). Hann gildir frá 1. apríl 2019 og til 31. desember 2022. Samningurinn var undirritaður 22. júní.
Kirkjan.is hafði samband við formann Félags íslenska organista, Helgu Þórdísi Guðmundsdóttur.
„Samningar voru búnir að vera lausir í um átján mánuði, eða frá 1. janúar 2019,“ segir Helga Þórdís. Hún segir að samningaviðræður hafi staðið yfir í um eitt ár og tafist vegna þess að það tók langan tíma að skipa samninganefnd þjóðkirkjunnar. „Þrátt fyrir að svo langan tíma hafi tekið að semja var ávallt gott andrúmsloft, gagnkvæmur skilningur og virðing milli aðila,“ bætir Helga Þórdís við.
Hún segir samninginn fela í sér almennar launahækkanir til samræmis við það sem er að gerast á almennum vinnumarkaði um þessar mundir.
„Mikilvæg atriði kom nú loksins til framkvæmda,“ segir Helga Þórdís, „en það var að koma okkur sem erum stétt innan BHM inn í kjaraumhverfi BHM og svokallaða BHM launatöflu til samræmis við þá aðila sem vinna okkur við hlið í kirkjunni og hafa svipaða menntun.“ Hún segir að organistar hafi verið í öðru kerfi lengi vel sem segja má að hafi rýrt bæði kjarabætur þeirra og menntunarmat.
„Í síðustu samningum okkar sem giltu frá árinu 2016 var sérstök bókun gerð um það að vinna skyldi að því að meta menntun organista til launa,“ segir Helga Þórdís „og þessi nýi samningur endurspeglar vinnu í þá átt og er það ánægjuefni.“
Organistar hafa samþykkt samninginn.
hsh
Við samningaborðið. Frá vinstri: Launanefnd þjóðkirkjunnar:
Guðmundur Einarsson, sóknarnefndarformaður Seltjarnarneskirkju
Egill Heiðar Gíslason, í sóknarnefnd Laugarnessóknar
Ragnhildur Benediktsdóttir, formaður Launanefndar þjóðkirkjunnar
Gunnar Þór Ásgeirsson í sóknarnefnd Dómkirkjusóknar
Frá hægri er samninganefnd Félags íslenskra organista:
Þorvaldur Örn Davíðsson, organisti í Langholtskirkju
Helga Þórdís Guðmundsdóttir, organisti í Víðistaðakirkju
Jóhann Baldursson, organisti í Vídalínskirkju
Gunnar Hrafnsson, formaður F.Í.H., fulltrúi stéttarfélags organista