Sólheimar í 90 ár

4. júlí 2020

Sólheimar í 90 ár

Sólheimakirkja - altaristafla - heimaræktuð jólatré

Um þessa helgi er því fagnað að níutíu ár eru liðin frá því að merkileg starfsemi hófst í Sólheimum í Grímsnesi.

Og hver þekkir ekki Sólheima?

Á slíkum tímamótum horfir fólk ekki aðeins til framtíðar heldur og spyr um ræturnar.

Mannvinur Sesselja Sigmundsdóttir (1902-1974) var hugsjónakona og stofnaði barnaheimili á Sólheimum á afmælisdegi sínum, 5. júlí, 1930. Þá var hún 28 ára gömul kona. Sesselja hafði lagt stund á nám í uppeldisfræðum og barnahjúkrun í Sviss og Þýskalandi. Í henni brann hugsjón um að styðja við bakið á börnum sem bjuggu við bágar aðstæður eða voru vanrækt með einhverjum hætti. Börn með þroskahömlun og ungmenni eignuðust hug hennar allan. Og fyrir það eru kannski Sólheimar þekktastir: að hafa búið þeim hið sérstaka og góða samfélag í Grímsnesinu. Þar fékk Sesselja og útrás fyrir aðra hugsjón sína sem var lífræn ræktun. Og fyrir það eru Sólheimar og kunnir um allt land

Mannúð og ræktun.

Milli Sólheima og þjóðkirkjunnar hefur alltaf verið sterkur þráður. Ekki það að þjóðkirkjan vilji eigna sér eitt né neitt í frumkvöðlastarfi Sesselju heitinnar. Þjóðkirkjan lagði henni hins vegar lið – Barnaheimilisnefnd þjóðkirkjunnar kom þar við sögu ásamt sóknarprestinum á Mosfelli, sr. Guðmundi Einarssyni. 

Skipulagsskrá Sólheima, 2. gr.
Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir og Barnaheimilisnefnd þjóðkirkjunnar eru stofnendur Sólheima.

Í stuttu máli var forsagan sú að prestar voru í þeim hópi er studdu Sesselju. Þar má fyrst nefna sr. Guðmund Einarsson á Mosfelli. Eins sr. Ásmund Guðmundsson, síðar biskup, sr. Hálfdan Helgason og sr. Bjarna Jónsson. Barnaheimilisnefnd þjóðkirkjunnar lagði málinu lið með ýmsum hætti. En Sesselju var treyst í hvívetna og 4. gr. fyrstu skipulagsskrárinnar kvað á um að hún hefði á hendi „alla stjórn stofnunarinnar.“

Jörðin Hverakot var keypt undir rekstur heimilisins og það nefnt Sólheimar. Eða Sólheimar í Hverakoti. Það var Barnaheimilissjóður þjóðkirkjunnar sem lánaði fé til kaupanna, alls átta þúsund krónur. 

Margt hefur gerst á níutíu árum. Á Sólheimum fer fram umsvifamikil starfsemi og það er sjálfbært samfélag. Eina sinnar tegundar hér á landi.

Ekki má gleyma því að kirkja er á Sólheimum. Hún var vígð fyrir fimmtán árum af sr. Karli Sigurbjörnssyni, biskupi. Segja má að það megi teljast sögulegt að kirkja sé skuldlaus á vígsludegi en svo var um Sólheimakirkju. Það segir sögu margra velunnara Sólheima og hve hugur þeirra er kærleiksríkur.

Í dag hefst menningarveisla Sólheima kl. 13.00. Hún stendur alla helgina – og í raun í allt sumar.

Fjölmargir tónleikar verða til dæmis í Sólheimakirkjunni.

Facebókarsíða Sólheima

Gróðurstöðin Ölur á Sólheimum

Heimasíða Sólheima

Árið 1990 kom út bókin: Mér leggst eitthvað til – Sagan um Sesselju Guðmundsdóttur og Sólheima. Bókina ritaði Jónína Michaelsdóttir

hsh

 
Jón Svavar og Guðrún Dalía - tónleikar í Sólheimakirkju

Líf og fjör á Sólheimum


Hér sést að Hverakot í Grímsnesi var keypt af sjóðnum fyrir kr. 8.000

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls