Tími framkvæmda
Víða má sjá iðnaðarmenn að störfum. Húsamálarar í hæstu hæðum uppi á þökum eða við veggi, múrarar með urgandi hrærivélar sínar og spaða, smiði með hvínandi vélsagir og tól. Vinnupallar hér og þar við hús. Og hamarshöggin dynja.
Já, og blessuð sólin skín. Kannski ekki alltaf. En oft.
Sumarið vekur framkvæmdahug hjá mörgum enda kemur oft í ljós sitthvað sem þarf að laga fyrir veturinn eins og sagt er. Og það er líka hvati til framkvæmda að virðisaukaskattur skuli vera endurgreiddur: Allir vinna, sjá hér.
Þak Grensáskirkjuer mjög svo bratt og það getur blásið í kringum hana enda hún í Hvassaleitinu. Kirkjan var vígð 1996 en áður var safnaðarheimilið notað sem kirkja og kom það til árið 1972. Glæsilegir steindir gluggar eftir Leif Breiðfjörð prýða kirkjuna en það var Kvenfélag Grensáskirkju sem gaf þá. Kirkjuna teiknaði Jósef Reynis, arkitekt.
Kirkjan.is innti Þuríði Guðnadóttur, kirkjuvörð, um framkvæmdirnar. Hún sagði að þær gengju bara vel fyrir sig. Þuríður sagði að til stæði að loka líka glerþaki sem er á milli kirkju og gangs. „Það hefur alltaf verið til vandræða vegna vatnsleka,“ sagði hún. Eins á að fara í framkvæmdir innan dyra. „Gólfið í safnaðarheimilinu þarf að taka upp og laga,“ sagði Þuríður. Hún sagði að einnig væri í bígerð að taka eldhúsið í safnaðarheimilinu í gegn.
Þá er verið að undirbúa framkvæmdir í kjallara kirkjunnar þar sem Tónskóli þjóðkirkjunnar var áður til húsa en hann flutti fyrir skömmu í Hjallakirkju í Kópavogi. Ný starfsemi í kjallaranum krefst nokkurra úrbóta.
Kirkjuna á að múra að utan og síðan verður hún máluð. Þetta eru miklar framkvæmdir og dýrar. Eitt er víst að þegar þær eru um garð gengnar mun allt kirkjuhúsið og safnaðarheimilið verða mikil hverfisprýði.
hsh
Norðurhlið kirkjunnar
Norðurhlið safnaðarheimilisins