Útimessa fyrir austan
Geirsstaðakirkja er í landi Litla-Bakka við Hróarstungu. Þangað hafa kannski ekki margir komið. Þau sem ekki hafa komið þangað en eru á ferð um Tunguveg nr. 925 eða annars staðar nærstödd um þessar mundir ættu að líta þar við á morgun kl. 16.00.
Hvers vegna?
Jú, þar verður útimessa á flötinni við kirkjuna. Sr. Þorgeir Arason, sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli, heldur utan um helgihaldið. Torvald Gjerde leikur á harmoniku undir sálmasöng. Síðan segir Skúli Björn Gunnarsson frá kirkjunni og tilgátunum að baki byggingunni. Skúli Björn er forstöðumaður Skriðuklausturs (áður Stofnun Gunnars Gunnarssonar að Skriðuklaustri).
Fólk er hvatt til að taka með sér púða eða teppi til að sitja á. Þá er minnt á að ekki spilli að taka með sér nestisbox og kaffikönnu til að leggja í messukaffipúkk.
Sr. Þorgeir segir að messað hafi verið upp til fjalla og inn til dala, við fossa og flatir.
„Það hefur verið messað einu sinni áður við Geirsstaðakirkju,“ segir sr. Þorgeir og bætir því við að Geirsstaðakirkja hafi ekki stöðu sem venjuleg kirkja. Hún er ekki sóknarkirkja – hún er blessuð en ekki vígð – og ekkert reglulegt helgihald fer þar fram. „Í raun og veru er Geirsstaðkirkja tilgátuhús en þó hafa farið þar fram fáeinar athafnir eins og hjónavígslur og skírn.“
„Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, er margfróður um söguna og er sonur landeigenda og þekkir mjög vel til,“ segir sr. Þorgeir og bætir við gaman sé að hlýða á hann.
Geirsstaðakirkja var áður í umsjá Minjasafns Austurlands en nú eru það landeigendur á Litla-Bakka, þau Svandís Skúladóttir og Gunnar Guttormsson, sem sjá um hana.
„Messan var undirbúin í samráði við þau Svandísi og Gunnar,“ segir sr. Þorgeir, „við vonum að hún verði vel sótt en um mætingu er ævinlega rennt blint í sjóinn.“
Veðurspáin er góð að sögn sr. Þorgeirs og er hann vongóður um að margir hafi áhuga á að sameina útivist, helgihald og sögulega fræðslu með þessu móti.
Sr. Jóhanna Sigmarsdóttir blessaði kirkjuna sumarið 2001.
Minjasafn Austurlands rekur öflugan upplýsingavef sem sjá má hér.
Skriðuklaustur
hsh
Þessi leiðsögn getur komið að notum