Framkvæmdir á Esjubergi

22. júlí 2020

Framkvæmdir á Esjubergi

Setsteinum komið fyrir - suma þarf að grafa niður að hluta til

Í gær voru miklar framkvæmdir við útialtarið á Esjubergi á Kjalarnesi. Kirkjan.is var á staðnum og fylgdist með. Komið var fyrir setsteinum í innri hring altarisins en hver þeirra er um 200-300 kg. að þyngd. Sjálft altarið er ellefu tonn að þyngd. Stórvirkt vinnutæki ók upp að altarinu. Út spratt vörpulegur maður og handstýrði stálarmi sem gat teygt sig út fimmtán metra og með kröftuga kló á enda og setti niður steinana sem næst þeim stað þar sem þeir eiga að vera. Síðan mun þurfa litla gröfu til að hagræða steinunum svo þeir fari nokkuð nákvæmlega þar sem þeir eiga að vera. Kristín Auður Kelddal Elíasdóttir, hleðslukona, var mætt á svæðið og stýrði verki. Hún mun svo sjá um frágang steinanna.

Framkvæmdir við altarið hófust fyrir rúmlega fjórum árum. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, tók fyrstu skóflustunguna ásamt öðrum. Síðan hefur verið unnið hægt og bítandi við altarið en framkvæmdin er nokkuð kostnaðarsöm. Einstaklingar, sjóðir, fyrirtæki, og kirkjan, hafa lagt fé til verksins.

Nýbúið er að steypa keltneska krossinn sem mun rísa upp úr altarinu. Það hefur verið nokkuð tafsamt verk og vandasamt en er vonandi komið í höfn. Síðan verða nokkur keltnesk tákn sett á krossinn og steinar sem nemendur við Klébergsskóla á Kjalarnesi hafa tínt í fjörunni auk nokkurra steina frá eyjunni Iona sem er tengd keltneskri kristni.

Mikill áhugi hefur verið fyrir útialtarinu á Esjubergi bæði meðal heimamanna og annarra. Altarið hefur vakið mikla athygli og þykir falla vel að náttúru, kristni og menningu Íslands.

Alltaf er guðsþjónusta við útialatrið á Kjalarnesdögum og við önnur tækifæri. Á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna 6. desember hefur verið réttlætisstund við altarið og oft verið fjölsótt.

Það er sögufélagið Steini sem hefur umsjón með verkinu. Formaður þess er Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir.

Esjuberg á Kjalarnesi 
Sagnir herma að fyrsta kirkja á Íslandi fyrir kristnitöku hafi verið reist á Esjubergi á Kjalarnesi. Mun það hafa verið um árið 900. Ekki er vitað hvar í landi Esjubergs kirkjan stóð. Næsta líklegt er að skriðuföll í Esju hafi spillt vegsummerkjum eftir hana en þau breyttu ásýnd jarðarinnar og huldu flestar minjar á Esjubergi sem þar höfðu staðið um aldir og m.a. svonefnd kirkjurúst.

Fornleifarannsókn fór fram árið 1981 á þeim stað á Esjubergi þar sem menn töldu að kirkja hefði staðið og kirkjugarður. Ekkert fannst sem gat staðfest að kirkja hefði staðið á þeim stað.

Í Landnámu (Sturlubók) segir að Örlygur Hrappson hafi fengið frá Patreki Suðureyjarbiskupi „kirkjuvið ok járnklukku ok plenárium ok mold vígða“ til að nota í kirkju sem reisa skyldi þar hann næmi land og eigna hinum heilaga Kolumba. Örlygur reisti kirkju á Esjubergi.

Í kirknaskrá Páls Jónssonar, biskups, frá 1200, er getið um kirkju á Esjubergi: „Kirkja at Esjubergi.“

Þá er og getið um kirkju á Esjubergi í Kjalnesingasögu frá 14. öld. „Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni.“

Þrátt fyrir að áþreifanleg ummerki um kirkju á Esjubergi hafi ekki enn fundist á Esjubergi hafa Kjalnesingar hin síðari ár haft um hönd helgihald á staðnum í júnímánuði ár hvert.

Tilgangurinn með uppsetningu útialtaris og minnismerkis í landi Esjubergs er að vekja verðskuldaða athygli á merkum kristnum sögustað. Útialtarið verður notað við kristið helgihald og ýmsar athafnir eins og brúðkaup og skírnir.

Altarissteinninn var sóttur í Esjubergsnámur og upp úr honum mun standa um tveggja metra hár keltneskur kross. Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft forystu í máli þessu í samvinnu við ýmsa aðila.

hsh


Horft frá setbekk altaris til Laugargnípu í Esju - íslenskur vallhumall nýtur sín vel við veggjarbrún

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls