Reykholt umvafið sígildum tónum
Það er alltaf mikill menningarviðburður þegar Reykholtshátíð er sett. Hátíðin hófst í gær og lýkur síðdegis á morgun.
Dagskrá Reykholtshátiðar er jafnan metnaðarfull og leitast við að tefla fram tónlistarfólki í fremstu röð.
Opnunartónleikar hátíðarinnar voru í gærkvöldi og tókust einstaklega vel. Þar voru þeir feðgar á ferð, Kristinn Sigmundsson og Jóhann Kristinsson. Hægt verður að hlýða á kórkonsert Hljómeykis í dag kl. 16.00 en honum stjórnar Þorvaldur Örn Davíðsson. Þá verður kammerkonsert í kvöld kl. 20.00 og lokakonsert hátíðarinnar verður kl. 16.00 á morgun, sunnudag.
Tónleikarnir fara fram í Reykholtskirkju en hljómburður í henni er einstaklega góður.
Á Reykholtshátíð er jafnan fluttur áhugaverður fyrirlestur í Snorrastofu en af óviðráðanlegum ástæðum er hann felldur niður þetta árið.
Umsjónarmaður hátíðarinnar er Sigurgeir Agnarsson, sellóleikari.
Þetta er 25ta Reykholtshátíðin og er hún jafnan haldin síðustu helgina í júlímánuði.
Á morgun fagnar Reykholtssöfnuður kirkjudegi sínum með hátíðarguðsþjónustu kl. 14.00.
Kirkjan.is hvetur öll þau sem eiga leið um Borgarfjarðarhérað í dag og á morgun að staldra við í Reykholti. Þar í hlaði er kristni, saga, menning og listir. Er hægt að bjóða betur?
hsh
Hér má hlusta á Hljómeyki syngja á Reykholtshátíð 2018, stjórnandi er Marta Guðrún Halldórsdóttir