Organistinn: Tómas Guðni
Hann gengur rakleitt að hljóðfærinu í Seljakirkju í Breiðholti, grannur og einbeittur á svip. Opnar kóralbókina og lítur yfir hana, snýr sér að söngfólkinu. Og síðan fer hann fimum höndum um hljóðfærið. Hér er maður sem kann til verka og meira en það.
Guðsþjónustan gengur vel fyrir sig á þessum síðasta sunnudegi júlímánaðar. Og þegar presturinn, sr. Bryndís Malla Elídóttir, stígur í stólinn, sest organistinn á kirkjubekk og hlýðir á eins og aðrir.
Prestinum mælist vel í umfjöllun sinni um mettun þúsundanna. Hún vísar til steinds glugga í kirkjunni sem bregður leiftri upp úr þeirri frásögu Jesú. En þennan sólbjarta sunnudagsmorgunn nutu steindir gluggar Einars Hákonarsonar, myndlistarmanns, sín einkar vel. Þeir eru nánast það fyrsta sem fyrir augu ber þegar inn í kirkjuna er komið, í sjónhæð, sterkir og litfagrir, mynda hring sem er rofinn af kirkjudyrum, þegar maður stígur inn í söguna eilífu sem gluggarnir rekja, allt frá sköpun heimsins og til þess dags er ljósið kemur inn í hann.
Eftirspilið er svo leikið með miklum glæsibrag - maður og hljóðfæri renna saman í eitt – það er list – og hún hrífur hjörtu mannanna til Guðs. Fólk staldrar ögn við á leiðinni út og kórinn klappar organistanum lof í lófa með hlýju brosi á vör þegar síðasti tónninn er sleginn. Þetta er okkar maður, má lesa úr andlitum fólksins.
Tómas Guðni hefur verið organisti í Grundarfirði, Stykkishólmi og Grindavík.
Nú er hann organisti og tónlistarstjóri í Seljakirkju í Reykjavík. Hefur verið það í tíu ár og er ánægður í starfi.
Kirkjan.is tók hann tali í lok guðsþjónustunnar í Seljakirkju í gær.
Tómas Guðni sagðist vera að æfa fyrir hádegistónleika í Hallgrímskirkju á fimmtudaginn 30. júlí. Kórónaveirufaraldurinn sló alþjóðlega orgelsumarið 2020 út af nótnaborðinu en íslenskir organistar hlupu í skarðið svo að Klais-orgel Hallgrímskirkju þagnar ekki. Listvinafélag Hallgrímskirkju stendur fyrir tónleikunum. Dagskráin er fjölbreytileg og vönduð.
Og kirkjan.is spyr Tómas Guðna hvað hann ætli að leika:
Kirkjan.is óskar honum góðs gengis og spyr svona í lokin hvað organistar geri í tómstundum sínum.
„Stangveiðimaður þegar tækifæri gefst, veiði silung,“ segir hann ákveðið. „Á veturna fer ég á rjúpu.“ Ekki alinn upp við veiðiskap enda þótt rjúpur hafi verið á borðum á æskuheimili hans. Veiðiskapnum hafi hann kynnst í gegnum vini sína í tónlistinni og fallið fyrir honum.
„Það er gott að vera úti í náttúrunni á veiðum, maður slakar á og hvílist,“ segir hann hugsi og bætir því við að það sé sérstaklega gott fyrir organista sem megi helst ekki slá feilnótu á vinnustað en aftur á móti puðrist æði mörg feilskotin út um hlaupið á haglaranum á rjúpnaveiðum. „Fáar sögur fara hins vegar af aflabrögðum úr veiðitúrunum“, segir hann með glettnislegum svip. En það er bara allt, allt önnur saga.
hsh