Fólkið í kirkjunni: List og kirkja

31. júlí 2020

Fólkið í kirkjunni: List og kirkja

Guðni Einarsson og steindir gluggar í Suðureyrarkirkju

Margar kirkjur eiga í fórum sínum mikla dýrgripi eins og forna kaleika, altaristöflur og skírnarfonta.

Steindir gluggar eru í mörgum kirkjum. Þeir eru líka dýrgripir enda þótt þeir séu ekki gamlir. 

Suðureyrarkirkja við Súgandafjörð er prýdd steindum gluggum eftir Benedikt Gunnarsson (1929-2018) en hann var fæddur á Suðureyri og þjóðkunnur listamaður.

Gluggarnir komu í kirkjuna árið 2000 og voru gefnir í tilefni af 1000 ára kristnitökuafmælinu. Gefendur voru velunnarar Suðureyrarkirkju og voru þeir gefnir til minningar um látna ástvini. Fyrst komu tólf gluggar, síðar bættust fleiri við.

Gluggarnir eru helsta gersemi Suðureyrarkirkju.

Kirkjan.is ræddi í gær við formann sóknarnefndar Suðureyrarkirkju, Guðna Einarsson, sem sýndi kirkjuna. Sóknin er kennd við Stað, Staðarsókn, og er í Holtsprestakalli. 

Falleg kirkja Suðureyrarkirkja er sviphrein, björt og rúmgóð. Hún var vígð 1937 og tekur 150 manns í sæti. Altaristafla hennar er eftir Brynjólf Þórðarson (1896-1938), listmálara. Myndin sýnir Jesú með lærisveinum sínum og vísar til Lúkasarguðspjalls 11. 2-4. Brynjólfur málaði gjarnan eftir listaverkum frægra manna og eru myndir hans í nokkrum kirkjum á Íslandi. En fyrirmynd þessarar myndar hefur ekki fundist. Myndin er í veglegum tréramma.

„Ég er skírður hér og fermdur,“ segir  Guðni stoltur. Hann segist hafa tekið sóknarnefndarformennskuna að sér tímabundið til að bjarga málum.

Guðni er öflugur athafnamaður í sinni heimabyggð og vanur ýmsum umsvifum.

Miklar framkvæmdir standa fyrir dyrum við Suðureyrarkirkju. Ráðist verður í endurnýjun á þaki og kirkjan máluð. Þá þarf að taka upp allt tréverk glugganna og skipta því út en það er illa farið.

„Steindu gluggarnir eru í lagi,“ segir Guðni. Hann segir að fólk sé að velta því fyrir sér að hafa enga gluggapósta svo að gluggarnir njóti sín enn betur utan frá. Ljós sé haft í kirkjunni að vetrarlagi og þá sjást þeir vel.

Þetta sagði Benedikt Gunnarsson um gluggana árið 2000 þegar þeir voru vígðir „Allar glermyndirnar eiga það sameiginlegt að vera samfelldur óður til almættisins. Kristin trú, kristin viðhorf til lífs og umhverfis, eru meginkveikimáttur þeirra, og þar á allt inntak verkanna rætur. Verkin spretta úr veröld ljóssins, sem lífið gaf og aldrei þverr.“

Kirkjumaðurinn Guðni svarar því til þegar kirkjan.is spyr hvað hann starfi að hausaþurrkun sé þar efst á blaði.

„Þorskhausar og ýsuhausar,“ segir hann hressilega. Og kirkjan.is spyr hvert þeir séu seldir og hann svarar að bragði: „Til Nígeríu.“

Kirkjan.is veltir því fyrir sér hvernig þeir bragðist og spyr Guðna sóknarnefndarformann. Hann segir að í Nígeríu séu þeir kryddaðir ótæpilega og fyrir vikið sé erfitt að koma þeim niður. „Þeir sjóða þá í einhvers konar stöppu.“ En fæðan er meinholl og meira en það.

Guðni segir kirkjuna mikið notaða af pólsku fólki sem búsett er á Suðureyri og er það ánægjuefni. Hann er líka hæstánægður með prestinn sinn, sr. Fjölni Ásbjörnsson, og segir hann vera hinn besta og mætasta dreng. „Ég stæði ekki í þessari formennsku nema vegna hans,“ segir hann ákveðinn á svip. Hann er traustur maður á sínum stað.

Guðni Einarsson, sóknarnefndarformaður á Suðureyri, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh


Gluggar Benedikts eru afar fallegir


Suðureyrarkirkja er sviphrein og stendur fremst í bænum


Þessi gluggi bíður þess að vera tekinn í gegn! Og svo verður málað.


  • Leikmenn

  • List og kirkja

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sóknarnefndir

  • Trúin

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls