Barnastarfið fer af stað

17. ágúst 2020

Barnastarfið fer af stað

Halla Marie og Engilráð, brúða, ræða málin

Um þessar mundir er barna- og æskulýðsstarf kirknanna að fara af stað. Margir koma að því starfi og leitast er við að hafa það sem fjölbreytilegast.

Í gær var blásið til fjölskylduhátíðar í Digraneskirkju og var um að ræða samvinnuverkefni með Hjallakirkju. Það var sungið af innilegri gleði og hreyfiaflið notað af miklum krafti, boðið upp á brúðuleikrit, myndband sýnt, beðist fyrir og síðan þegnar grillaðar pylsur.

Og að endingu beið hoppukastalinn barnanna.

Sunnudagaskólinn að byrja með pomp og prakt eins og sagði í auglýsingunni.

Það var hljómsveitin Sálmari sem lék og leiddi sönginn af gleði og öryggi. Sú hljómsveit er öflug og hefur starfað um nokkurt skeið og boðið fram krafta sína í kirkjum og á kristilegum samkomum. Þau sem skipuðu sveitina í gær voru Birkir Bjarnason, Markús Bjarnason og Harpa Vilborg R. Schram.

Önnur vösk sveit stjórnaði samkomunni. Æskulýðsprestur Digraneskirkju, sr. Helga Kolbeinsdóttir, var þar við stjórnvölinn ásamt sr. Bolla Pétri Bollasyni, afleysingapresti. Þeim til halds og trausts voru þær Halla Marie Smith og Sara Lind Arnfinnsdóttir.

Ekki var annað að sjá en börn og fullorðnir hefðu mikla ánægju af þessari ágætu stund. Það skyggði þó ögn á í upphafi að hoppukastalinn lá fyrir utan kirkjudyr aðframkominn og óuppblásinn. Blástursvélin neitaði að fara í gang og úr vöndu var að ráða. Sr. Bolli Pétur, Þingeyingur að ætterni, hafði svosem á orði að hann færi létt með að blása kastalann upp ef í hart færi. Heppinn var hann að meðan á stundinni stóð kom þar bjargvættur með nýtt blásturstæki og stóð kastalinn útþaninn og stoltur þegar börnin komu út eftir pylsuhressinguna. Ekki var að sökum að spyrja að þau ruku inn í hann. Hoppuðu og skoppuðu alsæl á svip.

Þetta var vel heppnuð stund á vegum Digranes- og Hjallakirkju.

Vel skipulagt og öflugt barna- og æskulýðsstarf er hollt lífsmerki í hverjum söfnuði – og sá söfnuður þarf ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni.

Samstarf Digraneskirkju og Hjallakirkju er í anda fyrirhugaðrar sameiningar  en tillaga um hana var lögð fram á kirkjuþingi í fyrra.

hsh

 


Hreyfingar á hreinu. Frá vinstri Sara Lind, Halla Marie og sr. Helga


Sr. Bolli Pétur, Sara Lind og Halla Marie


Sálmari, frá vinstri: Harpa Vilborg, Markús og Birkir


Sr. Bolli Pétur var brúðumeistari og gerði það firna vel


Hoppukastalinn í hvíldarstellingu


Hoppukastalinn tilbúinn til leiks


  • Barnastarf

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls