Ekkert barn útundan
Barnafjölskyldur sem búa við fátækt njóta stuðnings Hjálparstarfs kirkjunnar þegar skólastarf fer aftur af stað á næstunni.
Flestir grunnskólanna verða settir nú á mánudaginn.
Haustið er komið og með það koma „lítil börn með skólatöskur“, eins og hin ágæta skáldkona, Vilborg Dagbjartsdóttir, orðaði það í ljóði sínu Nú haustar að.
Og þetta haust sem öll önnur á ekkert barn að verða útundan sökum efnaleysis!
Hjálparstarf kirkjunnar tekur nú á móti umsóknum frá barnafjölskyldum sem búa við kröpp kjör um aðstoð í upphafi skólaárs.
Tekið er á móti umsóknum á skrifstofu Hjálparstarfsins á neðri hæð Grensáskirkju, Háaleitisbraut 66 í Reykjavík á virkum dögum klukkan 10.00 – 15.00 Vegna kórónuveirufaraldurs er fólk beðið um að panta tíma hjá félagsráðgjafa Hjálparstarfsins í síma 528-4400 áður en það kemur á staðinn.
Hjálparstarf kirkjunnar hefur jafnframt hafið fjáröflun fyrir verkefninu með því að senda valgreiðslu að upphæð 2.600 krónur í heimabanka landsmanna.
kó/hsh
Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir
að tína reyniber af trjánum
áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið,
en það eru ekki þeir sem koma með haustið
það gera lítil börn með skólatöskur.
(Úr ljóðabókinni: Laufið á trjánum, eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur).