Danir alltaf ferskir
Séra Úlrik Pilemand er danskur prestur. Hann var orðinn þreyttur á daufri kirkjusókn og að því sem honum fannst ósýnilegu kirkjunum sínum tveimur. Fallegar kirkjur úti í skógi, í útjaðri sóknanna – þannig er það líka sumstaðar hér á landi, sóknarkirkjur fyrir utan þéttbýlið eða í jaðri þess.
Hann tók til sinna ráða. Útvegaði sér ágætt reiðhjól, svo kallað Kristjaníuhjól, knúið rafmagni. Það er merkt dönsku þjóðkirkjunni og svo útbúið að þegar hann lyftir lokinu upp af geymsluhólfi hjólsins þá er komið upp þetta fína borð, altarisborð, og altaristafla sem hann teiknar hvert sinn eftir því sem hugurinn segir til um eða skrifar á hana skilaboð. Oft kallar hann á börn og nærstadda sér til aðstoðar. Svo er hann með vín og brauð í farteskinu, og altariskross. Allt sett upp til að minna á kirkjuna.
Séra Úlrik hjólar rösklega heiman frá sér til þorpsins Tisvildelje á Norður-Sjálandi en þar búa um fimmtán hundruð manns og þau eru langflest sóknarbörn hans. Hann nemur staðar hjá kaupmanninum á horninu og stillir hjólinu sínu upp. Altaristaflan sést vel og hann skrifar alltaf fyrst á hana: Sóknarpresturinn þinn hefur tíma eilífðarinnar – fyrir þig! Svo er hann með tvo klappstóla, einn fyrir sjálfan sig og annan fyrir einhvern vegfaranda.
„Já, ég sest hér niður og leitast við að vera sýnilegur,“ segir séra Úlrik. „Reyni að ná augnsambandi við fólk sem gengur framhjá.“ Hann segir líka sitja þarna og renna yfir dagblöðin.
„Fólk tekur eftir áletruninni á hjólinu,“ segir hann, „og sér að ég er prestur.“ Hann segir sýnileikann vera lykilatriði og sömuleiðis gott aðgengi að prestinum. Svo býður hann að auki upp á rjúkandi heitt kaffi og ilmandi smákökur.
Og á hjólinu er letruð setning á latínu og það er með ráðum gert.
„Ef þetta væri skrifað á dönsku þá myndu fáir spyrja um það,“ segir séra Úlrik. Hann segir latínuna vekja forvitni. „Fólk spyr hvað þetta þýði og ég segi það og þá um leið er komið á samband á milli mín og þess sem spyr.“
Ecce nova facio omnia. (Apoc. 21.5).
Sjá, ég geri alla hluti nýja. (Opinberunarbókin 21.5.)
En séra Úlrik segist ekki standa við hjólið og prédika. „Það væri of mikið trúarlegt áreiti og einhliða – þetta er ekki staðurinn til að prédika upp á gamla móðinn.“
Séra Úlrik vonast til að fá góðan stað í aðalgötu þorpsins í framtíðinni og hann mætti kalla Prestahornið.
Kannski geta íslenskir prestar fetað í fótspor séra Úlriks – eða öllu heldur hjólað í hjólför hans?
Svo öllu sé nú til haga haldið þá eru nokkur dæmi um að íslenskir prestar og þá einkum í smærri byggðarlögum hafi gert sér far um að vera sýnilegir á almannastöðum að hætti séra Úlriks. Bensínstöðvar með skyndibitahorni og ókeypis kaffi hafa til dæmis þjónað þeim tilgangi að vera umræðutorg víða úti á landi og þar hefur margurinn presturinn tyllt sér niður, já og fengið í nefið hjá köllunum! Nú, og allir þekkja til þess þegar presturinn bjó í sveitinni og byggðin þróaðist svo með þeim hætti að lítið þorp spratt upp í nágrenninu. Þess var ekki langt að bíða að margur presturinn flytti þangað - inn í þorpið. Og svo reis þar kirkja.
Kristeligt Dagblad/hsh
Séra Úlrik á leið til þorpsins
„Sóknarpresturinn þinn hefur tíma eilífðarinnar – fyrir þig!“
Myndir: Leif Tuxen/Kristeligt Dagblad
Facebókarsíða séra Úlriks