Vídalínsdagar
Á þessu ári eru 300 ár frá því að meistari séra Jón Vídalín lést.
Hann fæddist 21. mars 1666 og lést 30. ágúst 1720.
Postilla hans, Vídalínspostilla, mun halda uppi nafni hans hvað sem öðru líður. Hún kom fyrst út 1718-1720 og síðast 1995.
Þessara tímamóta verður minnst með ýmsu móti.
Upp úr stendur þó tveggja binda ritverk um meistara séra Jón Vídalín. Fyrra bindið er ævisaga hans og hið síðara geymir sýnishorn af skrifum hans – en hann var meistari orðsins. Þessar tvær bækur koma formlega út á föstudaginn þann 28. ágúst og af því tilefni verður stutt athöfn í Vídalínskirkju í Garðabæ og hefst hún kl. 16.00. Streymt verður frá athöfninni. Það var dr. Torfi K. Stefánsson Hjaltalín sem skrifaði ævisögu séra Jóns Vídalíns og sömuleiðis tók hann saman þau ritverk meistarans sem er að finna í síðara bindinu. Vinnan við verkið hefur staðið yfir frá árinu 2016 og er styrkt af Kirkjumálasjóði og fleiri aðilum. Samtals er verkið 1406 bls. Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar, gefur út.
En það er sunnudagurinn 30. ágúst sem er dánardagur meistarans og á þeim degi er kastljósinu sérstaklega beint að honum eins og gefur að skilja. Dagskráin er í nokkrum liðum og haldin á nokkrum stöðum. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, hefur hvatt presta til að minnast séra Jóns Vídalíns í ræðum sínum á sunnudaginn.
Í tveimur guðsþjónustum verður séra Jóns Vídalíns minnst með veglegum hætti. Það er í Skálholtsdómkirkju kl. 11.00 og í Garðakirkju á Álftanesi. Skálholtsdómkirkja geymir jarðneskar leifar meistarans sem fæddur var á Görðum á Álftanesi.
Síðdegis á sunnudeginum verður höfð um hönd helgistund í Þingvallakirkju og hefst hún kl. 15.30. Þar verður hringt sérstaklega þeirri klukku sem séra Jón Vídalín gaf kirkjunni árið sem hann vígðist til biskups í Skálholti, 1698. Þá verður einnig lesið úr prédikun hans frá 4. sd. eftir þrenningarhátíð, en hún er oft kölluð: Um lagaréttinn. Þessi dagskrá fer bæði fram innan kirkju og utan.
Sérstök helgistund verður í Biskupsbrekku kl.17.00 en þar lést séra Jón Vídalín 30. ágúst 1720. Þar verður og vígður nýr kross og afhjúpað minnismerki sem Páll Guðmundsson á Húsafelli hefur gert fyrir forgöngu Skálholtsfélagsins hins nýja. Síðan geta þau sem það kjósa fylgt þeirri leið sem farin var þegar lík hins andaða biskups var flutt í Skálholt 2. september 1720. Legsteinn séra Jóns Vídalíns er í kjallara kirkjunnar og þar lýkur hinni formlegu dagskrá með bæn.
Þau sem vilja geta pantað sér kvöldverð í Skálholtsskóla en það verður að gerast með fyrirvara eins og svo margt annað á kórónuveirutíma.
Í lok ævisögunnar spyr höfundur hvort séra Jón Vídalín eigi erindi til nútímans. Hann svarar því svo:
Og í lokin segir höfundur:
„Einnig er mikilvægt að rödd kirkjunnar og þar með trúarinnar nái eyrum fólks í dag. Kirkjan og trúin eru orðin að jaðarfyrirbæri í samfélaginu því félagsleg tengsl fólks hafa rofnað miðað við hvað áður var, þ.e. áður en markaðslögmálin urðu allsráðandi. Til að styrkja hin félagslegu tengsl, siðgæði og sjálfsaga og minnka neysluna þarf að huga að tímanum fyrir iðnbyltingu og læra af honum til að endurskapa samfélagið. Þar eiga menn eins og Jón Vídalín erindi og boðun hans á trú jafnt og breytni – þ.e. að maðurinn verði að vera samkvæmur sjálfum sér.“ (Bls. 617).
Afmælisnefnd var sett á laggirnar og skipulagði hún dagskrá vegna 300. ártíðar séra Jóns Vídalíns - í nefndinni sitja:
Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands
Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti
Sr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup í Skálholti
Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðaprestakalli
Sr. Elínborg Sturludóttir, prestur í Dómkirkjuprestakalli
Sr. Torfi K. Stefánsson Hjaltalín, dr. theol., höfundur og ritstjóri verksins
hsh