Kirkja og menning: Vídalínsdagar
Nokkrir viðburðir eru í tengslum við 300. ártíð meistara Jóns Vídalíns, sem var biskup í Skálholti 1698 og til dauðadags.
Í dag verður útgáfuhátíð í Vídalínskirkju og hefst hún kl. 16.00. Tilefnið er nýútkomin ævisaga Jóns Vídalíns og ritverk hans, tveggja binda verk, sem Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar, gefur út.
Athöfnin í Vídalínskirkju hefst á því að sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, ávarpar samkomuna. Síðan tekur forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, til máls.
Þá mun sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðaprestakalli, flytja ávarp. Loks mun höfundur ævisögu Jóns Vídalíns, dr. Torfi K. Stefánsson Hjaltalín, ræða um verk sitt.
Sunnudagurinn 30. ágúst er sá dagur er Jón biskup Vídalín lést í Biskupsbrekku við Uxahryggjaleið árið 1720. Biskup Íslands hefur hvatt presta til að minnast séra Jóns Vídalíns í ræðum sínum á sunnudaginn.
En Garðakirkja og Skálholtskirkja skipa sess í ævi meistara Jóns Vídalíns. Þess vegna verður hans minnst í þeim kirkjum með sérstökum hætti í guðsþjónustum kl. 11.00 á sunnudaginn.
Jón Vídalín fæddist á Görðum á Álftanesi 21. mars 1666, varð þar prestur og síðar biskup í Skálholti og þar eru jarðneskar leifar meistarans geymdar í kirkjunni.
Síðdegis á sunnudeginum verður höfð um hönd helgistund í Þingvallakirkju og hefst hún kl. 15.30. Þar verður hringt sérstaklega þeirri klukku sem séra Jón Vídalín gaf kirkjunni árið sem hann vígðist til biskups í Skálholti, 1698. Þá verður einnig lesið úr prédikun hans frá 4. sd. eftir þrenningarhátíð, en hún er oft kölluð: Um lagaréttinn. Þessi dagskrá fer bæði fram innan kirkju og utan.
Sérstök helgistund verður í Biskupsbrekku kl.17.00 en þar lést séra Jón Vídalín 30. ágúst 1720. Þar verður og vígður nýr kross og afhjúpað minnismerki sem Páll Guðmundsson á Húsafelli hefur gert fyrir forgöngu Skálholtsfélagsins hins nýja. Síðan geta þau sem það kjósa fylgt þeirri leið sem farin var þegar lík hins andaða biskups var flutt í Skálholt 2. september 1720. Legsteinn séra Jóns Vídalíns er í kjallara kirkjunnar og þar lýkur hinni formlegu dagskrá með bæn.
hsh