Góð stund í Vídalínskirkju

29. ágúst 2020

Góð stund í Vídalínskirkju

Góð stund í Vídalínskirkju í gær - frá vinstri: Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðaprestakalli, sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, dr. Torfi K. Stefánsson Hjaltalín, höfundur verksins um Jón Vídalín og ritstjóri þess

Útgáfuhátíð í Vídalínskirkju fór fram í gær í tilefni þess að ævisaga Jóns Vídalíns er komin út ásamt einu bindi af ritverkum hans. Það var dr. Torfi K. Stefánsson Hjaltalín sem ritaði söguna og tók saman ritverkin. Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar, gefur út. Streymt var frá viðburðinum. 

Biskup Íslands,  sr. Agnes M. Sigurðardóttir, ávarpaði samkomuna sem og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Höfundur flutti stutt erindi um verkið og tilurð þess. Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir flutti einnig ávarp en athöfninni stýrði vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson.

Þetta var vel heppnuð stund og ánægjuleg. 

Dagskrá Vídalínsdaga heldur áfram á morgun, 30. ágúst en það er sá dagur er Jón biskup Vídalín lést í Biskupsbrekku við Uxahryggjaleið árið 1720.

Biskup Íslands hefur hvatt presta til að minnast séra Jóns Vídalíns í ræðum sínum á sunnudaginn.

En Garðakirkja og Skálholtskirkja skipa sérstakan sess í ævi meistara Jóns Vídalíns. Hann fæddist á Görðum á Álftanesi 21. mars 1666 og var þar síðar prestur um hríð. Hann varð biskup í Skálholti 1698 og þar var hann lagður til hinstu hvílu 6. september 1720. 

Þess vegna verður hans minnst í þessum tveimur kirkjum með sérstökum hætti í guðsþjónustum kl. 11.00 á morgun.

Í Garðakirkju þjónar sr. Kjartan Jónsson fyrir altari. Leikarinn Jóhann Sigurðarson les úr fræðsluefni þar sem farið er yfir ævi Jóns Vídalíns og sitthvað fleira en það var Matthildur Bjarnadóttir, æskulýðsfulltrúi Garðasóknar, sem tók það saman. Sigurður Flosason og Gunnar Gunnarsson flytja sálmaspuna á milli lestra og sundinni verður streymt á Facebókarsíðu Vídalínskirkju.

Í Skálholti  eru það þeir sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, og sr. Egill Hallgrímsson sem annast þjónustuna. Organisti er Jón Bjarnason og leikur hann meðal annars verk frá tíma Vídalíns. 

Síðdegis á sunnudeginum verður höfð um hönd helgistund í Þingvallakirkju og hefst hún kl. 15.30. Þar verður hringt sérstaklega þeirri klukku sem séra Jón Vídalín gaf kirkjunni árið sem hann vígðist til biskups í Skálholti, 1698. Þá verður einnig lesið úr prédikun hans frá 4. sd. eftir þrenningarhátíð, en hún er oft kölluð: Um lagaréttinn. Þessi dagskrá fer bæði fram innan kirkju og utan. Umsjón með henni hefur sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, og sr. Elínborg Sturludóttir, prestur í Dómkirkjusókn.

Sérstök helgistund verður í Biskupsbrekku kl. 17.00 á sunnudeginum en þar lést séra Jón Vídalín 30. ágúst 1720. Þar verður og vígður nýr kross og afhjúpað minnismerki sem Páll Guðmundsson á Húsafelli hefur gert fyrir forgöngu Skálholtsfélagsins hins nýja. Síðan geta þau sem það kjósa fylgt þeirri leið sem farin var þegar lík hins andaða biskups var flutt í Skálholt 2. september 1720. Legsteinn séra Jóns Vídalíns er í kjallara kirkjunnar og þar lýkur hinni formlegu dagskrá með bæn.

hsh


Vídalínspostilla - 11. útgáfa (fyrri parturinn), 1827 - postillan kom síðast út 1995

    hateigskirkja.jpg - mynd

    Samverustund syrgjenda á aðventunni

    13. nóv. 2024
    Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
    kirkjanisaugl.jpg - mynd

    Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

    12. nóv. 2024
    Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
    Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

    Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

    08. nóv. 2024
    ...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls