Skírnarskógur

5. september 2020

Skírnarskógur

Sr. Agnes flutti ávarp við gróðursetningu í Skálholti

Veðrið gat ekki verið betra í Skálholti í dag. Sólbjartur dagur og ilmur haustsins yfir öllu og gróður jarðar að taka á sig litbrigði þess.

Hópur fólks kom saman til að gróðursetja fyrstu trén í skírnarskógaverkefni þjóðkirkjunnar. Hugmyndin er sú að planta einu tré fyrir hvern nýskírðan einstakling í landinu.

Kirkjan á jarðir í öllum landsfjórðungum og verða skikar úr þeim valdir til að gróðursetja skírnartrjáplöntur. Allt verður þetta gert í samvinnu við kirkjustjórnina, sóknarnefndir, presta og prófasta. Mikilvægt er að fólk taki höndum saman um verkefnið svo að öll þau sem skírast á næstu árum fái sitt tré. Skírnarskógar eru litlir í fyrstu eins og flest hinn nýskírðu en þeir stækka og þroskast eins og þau. Nýgróðursett skógarplanta ber framtíðina í sér eins og barnið nýskírða.

Það var svo sannarlega við hæfi að byrja í Skálholti á hinum forna kirkju- og menningarstað.

Skikinn sem valinn er úr landi Skálholts er vel gróinn og kjörinn til að setja þar niður birkiplöntur.

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, flutti ávarp og útskýrði verkefnið í fáum orðum og tengsl þess við umhverfismálin. Hún sagði það vera í samræmi við umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar þar sem meðal annars væri hvatt til lífsstíls sem drægi úr losun gróðurhúsalofttegunda, sóun orku og matar. Náttúrunni væri þjónað öllum sem best í hag með skógrækt, endurheimt votlendis, landgræðslu og öðrum vistvænum aðgerðum. Það væri ekki bara kristið fólk á Íslandi sem tæki undir þetta heldur fólk víðs vegar um heiminn og einmitt um þessar mundir. Umhverfismálin verða í brennidepli næstu fjögur árin sem og fræðslumálin, skírnarfræðslan. Hugmyndin um skírnarskóg fléttar umhverfismál og skírn saman með snjöllum hætti. Það var sr. Hildur Björk Hörpudóttir á fræðslu- og kærleiksþjónustusviði biskupsstofu sem átti þessa skemmtilegu hugmynd.

Síðan hófst fólk handa um að setja niður þessar þrjátíu plöntur sem voru með í för, fallegar og bústnar birkiemblur. Það gekk vel fyrir sig og öll viðstödd lögðu fram krafta sína.

Það var gleði og samtakmáttur sem sveif yfir þessum vaska hópi sem kominn var til að ýta skírnarskógaverkefni þjóðkirkjunnar úr vör.

Þegar gróðursetningu var lokið settist fólk niður og tók þátt í helgistund sem vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, stýrði

Síðan var haldið niður í Skálholtsbúðir með sól í sinni. Þar beið rjúkandi heitt kaffi og glæsilegt meðlæti. Heimabakað bakkelsi og rúgbrauð með osti og kæfu, hinni frægu og góðu Skálholtskæfu sem er engri annarri kæfu lík. Heiðurinn af veitingunum átti Sigurbjörg Bjarney Ólafsdóttir sem nú stýrir mötuneyti Skálholts, og starfsfólk hennar.

hsh


Formaður umhverfisnefndar þjóðkirkjunnar, sr. Halldór Reynisson, og forseti
kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir


Vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, stýrði helgihaldi í Skírnarskógi Skálholts


Helgistundin


Sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari, var kátur að vanda


Embla, birki, fallegar plöntur voru gróðursettar í dag í Skálholti


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls