Sr. Brynjólfur Gíslason, pastor emeritus, kvaddur
Sr. Brynjólfur Gíslason, fyrrum sóknarprestur í Stafholti í Borgarfirði, lést 7. september sl., rúmlega áttræður að aldri. Útför hans verður gerð frá Reykholtskirkju þriðjudaginn 15. september.
Sr. Brynjólfur, fæddist 26. desember 1938 á Kirkjubæjarklaustri á Síðu. Foreldrar hans voru hjónin sr. Gísli Brynjólfsson, prestur og prófastur, síðar fulltrúi í landbúnaðaráðuneytinu, og Ásta Þóra Valdimarsdóttir, húsfreyja.
Eftirlifandi eiginkona hans er Áslaug Pálsdóttir, húsfreyja og fyrrverandi leikskólastarfsmaður, frá Litlu-Heiði í Mýrdal. Þau eignuðust þrjár dætur, Ástu, Margréti, og Guðnýju. Stjúpsonur sr. Brynjólfs var Páll Pétursson, sonur Áslaugar. Sr. Brynjólfur og Áslaug fluttu úr Stafholti í Borgarnes þegar hann lét af embætti.
Sr. Brynjólfur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1959 og kenndi í Keflavík að því loknu. Meðfram námi í guðfræðideildinni kenndi hann við Gagnfræðaskólann við Lindargötu og Austurbæjarskólann; og var jafnframt um tíma blaðamaður á dagblaðinu Vísi. Þá var hann framkvæmdastjóri fangahjálparinnar Verndar frá 1967 til vors1969. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1968.
Sr. Brynjólfur var vígður 3. apríl 1969 til Stafholtsprestskalls og þjónaði þar alla sína embættistíð. Jafnhliða sóknarprestsstörfum sínum gegndi hann fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir sitt hérað, var í skólanefnd Hússtjórnarskólans á Varmalandi og Varmalandsskóla, formaður Sjálfstæðisfélags Mýrasýslu, var forseti Rótarýklúbbsins í Borgarnesi um hríð. Þá var hann í héraðsnefnd Borgarfjarðarprófastsdæmis í rúman áratug og í stjórn Hallgrímsdeildar Prestafélags Íslands um árabil. Í tíu ár var hann endurskoðandi Kaupfélags Borgfirðinga og í ritnefnd Borgfirðingabókar.
Sr. Brynjólfur var yfirlætislaus maður, hægur og þægilegur í samskiptum. Grannur og beinn í baki svo eftir var tekið. Sóknarbörnin virtu hann vel og treystu honum – hann var í góðu sambandi við þau án þess að vera með nokkurn fyrirgang; ráðhollur og blátt áfram í framkomu. Sveitaprestur og bóndi af gamla skólanum. Honum leið vel í samneyti við bændafólk. Um tíma var kaffiborð í Kaupfélagi Borgfirðinga við Egilsgötu þar sem bryddað var upp á þeirri nýlundu að fólk gæti tyllt sér niður og fengið sér kaffi. Stundum sat sr. Brynjólfur þar með kaffibolla í hönd og pípan aldrei langt undan og lágvært skrafið í sessnautum hans barst til þeirra er fram hjá gengu og þegar hann tók til máls þá þögnuðu menn og hlýddu – og það var stutt og snjallt enda hann ekki mikið fyrir langlokuræður. Það var sérstakur og hlýlegur kímnisglampi í vinalegum augum hans og kímnin var alltaf græskulaus.
Sr. Brynjólfur Gíslason er kvaddur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.
hsh