Þjóðkirkjulög
Eitt af fyrstu málum kirkjuþings 2020 sem rætt var í gær var tillaga til þingsályktunar um frumvarp til þjóðkirkjulaga. Það var forseti kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir, sem mælti fyrir því.
Málið snýst um að beina tilmælum til dómsmálaráðherra um að flytja á Alþingi frumvarp til þjóðkirkjulaga og er það mál nr. 3. á máladagskrá kirkjuþings.
Kirkjuþingsmenn lýstu almennt ánægju sinni með málið. Sumir tóku svo sterkt til orða að þetta væri hátíðisdagur í kirkjunni meðal annars vegna þess að nú sæi fyrir endann á hinni löngu vegferð sem gerð þessarar rammalöggjafar hefði tekið og að sjálfstæði kirkjunnar væri enn aukið í öllum verkum sínum. Svo var að sjá að mikill feginleiki svifi yfir vötnum kirkjuþings í umræðunni enda þótt sumir gerðu ýmsar athugasemdir við frumvarpið eins og gengur og gerist. Ein breytingartillaga var lögð fram um frumvarpið og kemur hún væntanlega til afgreiðslu enda þótt hvatt hafi verið til þess að hún yrði dregin til baka. Það kemur í ljós við afgreiðslu málsins. Málinu var svo vísað til allra nefnda kirkjuþings.
Frumvarp til laga um þjóðkirkjuna felur í sér heildarlög, rammalöggjöf, og telur alls fjórtán greinar og er í átta köflum. Þar er þjóðkirkjan skilgreind í sjö orðum:
Sjö er náttúrlega heilög tala eins og allir vita og á því vel við!
Síðan er fjallað um aðild að þessu trúfélagi, rætt almennt um réttarstöðu kirkjunnar og þjónustu hennar. Innan hennar er að sjálfsögðu jafnrétti og lýðræði. Þá er skilgreint hvað sé söfnuður, hvað sé sókn og sóknarbörn. Fjórði kafli segir frá kirkjuþingi og hefur það æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar og þar með talið fjárstjórnarvald. Þar skulu leikmenn vera fleiri en vígðir. Ísland verður eitt biskupsdæmi sem nú, og um hlutverk biskups segir: „Biskup Íslands gætir einingar kirkjunnar og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu.“ Sjá 10. gr., fimmta kafla. Í sjötta kafla er fjallað um samninga um eignarrétt milli þjóðkirkjunnar og ríkisins og í þeim áttunda er meðal annars kveðið á um að kirkjuþingið setji starfsreglur um málefni þjóðkirkjunnar. Síðasti kaflinn getur um gildistöku laganna og fleira.
Frumvarpið endurspeglar sterkan vilja til að draga sem mest úr afskiptum ríkisvaldsins af málefnum kirkjunnar og þá sér í lagi því sem snýst um innri málefni hennar.
Greinargerð með frumvarpinu er ítarleg og þar kemur margt fróðlegt fram og eru lesendur hvattir til að kynna sér hana.
Það var forsætisnefnd kirkjuþings sem setti á laggirnar nefnd til að vinna þetta frumvarp og var það gert í samstarfi við dómsmálaráðuneytið (ráðuneyti kirkjumála). Nefndina skipuðu: Anný Ingimarsdóttir, fulltrúi á kirkjuþingi, sr. Bryndís Malla Elídóttir, fulltrúi á kirkjuþingi, og Stefán Magnússon, kirkjuráðsmaður. Lögfræðingarnir Ragnhildur Benediktsdóttir og Skúli Guðmundsson störfuðu með nefndinni.
Mat er lagt á áhrif frumvarpsins í greinargerðinni áður en fjallað er um einstakar greinar þess. Þar segir:
Umræða um skýrslu kirkjuráðs og fjármál kirkjunnar fór fram á fyrsta degi kirkjuþings 2020 venju samkvæmt.
Fundir kirkjuþings hefjast í dag kl. 9.00.
hsh