Einhugur um þjóðkirkjulög

15. september 2020

Einhugur um þjóðkirkjulög

Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, bar tillöguna upp til atkvæða, grein fyrir grein, og loks í heild sinni og málið var samþykkt af öllum viðstöddum og þeim sem tóku þátt í þingstörfum með fjarbúnaði

Það telst til tíðinda þegar þrjár fastanefndir kirkjuþings eru sammála um afgreiðslu stórra og viðamikilla mála. Eðli máls samkvæmt eru skiptar skoðanir í þessum fastanefndum kirkjuþings: löggjafarnefnd, fjárhagsnefnd og allsherjarnefnd. Kirkjuþingsmenn taka allir þátt í störfum þessara nefnda.

Fullur einhugur þessara þriggja nefnda kirkjuþings var um tillögu til þingsályktunar um frumvarp til þjóðkirkjulaga sem forseti kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir, mælti fyrir á laugadaginn.

Málið var borið upp til atkvæða í morgun og var samþykkt samhljóða af kirkjuþingi. 

Málið snýst um að beina tilmæum til dómsmálaráðherra um að flytja á Alþingi frumvarp til þjóðkirkjulaga og var það mál nr. 3  á máladagskrá kirkjuþings.

Frumvarpið um þjóðkirkjulögin endurspeglar sterkan vilja til að draga sem mest úr afskiptum ríkisvaldsins af málefnum kirkjunnar og þá sér í lagi því sem snýst um innri málefni hennar.

Þjóðkirkjulögin eru rammalöggjöf og telja aðeins fjórtán greinar. Kirkjuþingi verður falið að setja allar aðrar reglur um starf þjóðkirkjunnar í landinu og er vald þess enn aukið frá því sem fyrr var að því viðbættu að fjárstjórnarvald kemur nú í hendur þess.

Þjóðkirkjan skilgreind í sjö orðum í frumvarpinu:

Þjóðkirkjan á Íslandi er evangeliskt lúterskt trúfélag.

Síðan er fjallað um aðild að þessu trúfélagi, rætt almennt um réttarstöðu kirkjunnar og þjónustu hennar. Innan hennar er að sjálfsögðu jafnrétti og lýðræði. Þá er skilgreint hvað sé söfnuður, hvað sé sókn og sóknarbörn. Fjórði kafli segir frá kirkjuþingi og hefur það æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar og þar með talið fjárstjórnarvald. Þar skulu leikmenn vera fleiri en vígðir. Ísland verður eitt biskupsdæmi sem nú, og um hlutverk biskups segir: „Biskup Íslands gætir einingar kirkjunnar og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu.“ Sjá 10. gr., fimmta kafla. Í sjötta kafla er fjallað um samninga um eignarrétt milli þjóðkirkjunnar og ríkisins og í þeim áttunda er meðal annars kveðið á um að kirkjuþingið setji starfsreglur um málefni þjóðkirkjunnar. Síðasti kaflinn getur um gildistöku laganna og fleira.

Greinargerð með frumvarpinu er ítarleg og þar kemur margt fróðlegt fram og eru lesendur hvattir til að kynna sér hana.

Það var forsætisnefnd kirkjuþings sem setti á laggirnar nefnd til að vinna þetta frumvarp og var það gert í samstarfi við dómsmálaráðuneytið (ráðuneyti kirkjumála). Nefndina skipuðu: Anný Ingimarsdóttir, fulltrúi á kirkjuþingi, sr. Bryndís Malla Elídóttir, fulltrúi á kirkjuþingi, og Stefán Magnússon, kirkjuráðsmaður. Lögfræðingarnir Ragnhildur Benediktsdóttir og Skúli Guðmundsson störfuðu með nefndinni.

Mat er lagt á áhrif frumvarpsins í greinargerðinni áður en fjallað er um einstakar greinar þess. Þar segir:

„Með frumvarpi þessu er svo sem áður er lýst stefnt að því að einfalda mjög allt regluverk þjóðkirkjunnar og lagt til að kirkjuþing fjalli enn frekar en verið hefur um innra skipulag og starf þjóðkirkjunnar og fari með fjárstjórnvarvald hennar að því marki sem því eru ekki sett takmörk með lögum. Með samþykkt frumvarps þessa verður þjóðkirkjan sjálfstæðari en áður í öllum sínum verkum. Íslenska ríkið greiðir þjóðkirkjunni árlega gagngreiðslu á grundvelli samninga milli þjóðkirkjunnar og ríkisins. Prestar og starfsmenn biskupsstofu verða ekki lengur opinberir starfmenn og falla ekki lengur undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þjóðkirkjulögin verða einföld rammalöggjöf en kirkjuþing mun setja starfsreglur, samþykktir og ályktanir um alla starfsemi kirkjunnar. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á jafnrétti eða stöðu kynjanna.“

Frumvarp til þjóðkirkjulaga.

hsh


  • Menning

  • Samfélag

  • Þing

  • Viðburður

  • Fundur

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls