Kirkjuþingstíðindi

17. september 2020

Kirkjuþingstíðindi

Bjalla kirkjuþings - gefin 1985

Fundum kirkjuþings 2020 var streymt og gátu því öll sem vildu fylgst með. Vegna kórónuveirufaraldursins var utanaðkomandi ekki heimilt að sitja á áheyrendapöllum eins og venja er.

Ekki hafa sérstök kirkjutíðindi verið gefin út með svipuðu sniði og Alþingistíðindi. Hins vegar hafa Gerðir kirkjuþings verið gefnar út en þær sýna ekki gang mála alltaf með jafn nákvæmum hætti og Alþingistíðindi. 

Heimasíða Alþingis er mjög svo vönduð og öflug. Veitir afar miklar upplýsingar um gang mála svo að til fyrirmyndar er. Hægt er að sjá til dæmis hver ferill mála er allt þar til þeim lýkur.

Þjóðkirkjan þyrfti að koma sér upp viðlíka kirkjuþingsheimasíðu og ekki síst í ljósi þess að kirkjuþingið er æðsta valdastofnun þjóðkirkjunnar. Þá hefur verið kallað eftir virkri samráðsgátt.

Hér má lesa stutt yfirlit yfir hvernig málum reiddi af sem komu til kasta kirkjuþings 2020 þar til fundum var frestað. Fyrirhugað er að framhaldsfundur kirkjuþings verði í nóvember og jafnvel einnig í mars.

Bráðabirgðagerðir kirkjuþings um afgreidd mál verða aðgengilegar hér á vef kirkjunnar á næstunni.

Samþykkt mál

1. mál: Skýrsla kirkjuráðs.  Í nefndaráliti allsherjarnefndar sagði í lokin að nefndin þakkaði ítarlega og góða skýrslu kirkjuráðs. Kirkjuþing samþykkti málið með svofelldri ályktun:

Um skýrslu kirkjuráðs
Kirkjuþing þakkar framtíðarnefnd þeirri, sem kirkjuráð skipaði, þá vinnu sem henni var falið að inna af hendi vegna viðbótarsamnings milli þjóðkirkjunnar og íslenska ríkisins. 

Kirkjuþing þakkar stjórn Skálholts og öðrum sem koma að starfsemi og uppbyggingu í Skálholti.

Kirkjuþing ályktar að farið verði yfir starfsreglur um Fjölskylduþjónustu kirkjunnar.

Kirkjuþing hvetur til að unnið verði úr niðurstöðum úttektar á aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra að kirkjum og safnaðarheimilum landsins og farið í framkvæmdir þar sem við á.

Kirkjuþing fagnar að hugmynd biskups Íslands um Dagsetur fyrir heimilislausar konur sé að verða að veruleika.

Kirkjuþing þakkar áfangaskýrslu nefndar sem er að semja tillögu að stefnumótun fyrir kærleiksþjónustu kirkjunnar.

Kirkjuþing þakkar öllu þjóðkirkjufólki framgöngu þess vegna Covid–19 faraldursins.


3. mál: Tillaga til þingsályktunar um frumvarp til laga um þjóðkirkjuna. Allar nefndir kirkjuþings lögðu til að málið yrði samþykkt eins og það var lagt fram og samþykkti kirkjuþing það einróma. Breytingartillaga við 2. mgr. um að 8. gr. falli brott féll því um sjálfa sig og kom ekki til atkvæða.

5. mál: Tillaga að starfsreglum um kjaranefnd þjóðkirkjunnar: Málið samþykkt með þessum breytingum: 1. gr. Í stað orðsins „ótakmarkað“ í fyrra málslið 3. gr. komi orðið: óskorað. 2. gr. Við 2. mgr. 5. gr. bætast orðin: og meiri hluti nefndarinnar er mættur. 3. gr. Í 1. mgr. 6. gr. fellur brott orðið: náið.

6. mál: Tillaga að starfsreglum um fjármál þjóðkirkjunnar: Samþykkt óbreytt.

7. mál: Tillaga að að starfsreglum um starfskostnað vegna prestsþjónustu og prófastsstarfa. Samþykkt óbreytt.

8. mál. Tillaga til þingsályktunar um gjaldskrá um greiðslur fyrir prestsþjónustu þjóðkirkjunnar. Fjárhagsnefnd fjallaði um málið og benti á að endurskoða þurfi fyrirkomulag aukaverka. Samþykkt óbreytt. 

12. mál: Tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum um þingsköp kirkjuþings nr. 949/2009, með síðari breytingum. Álit minnihluta og meirihluta voru borin upp. Meirihlutaálitið hafði vinninginn en í því var lagt til að málið yrði samþykkt óbreytt.

16. mál: Tillaga til þingsályktunar um skipan starfshóps til að vinna að mótun heildstæðrar eignastefnu þjóðkirkjunnar. Samþykkt óbreytt.

18. mál: Tillaga að starfsreglum um héraðsfundi og héraðsnefndir – samþykkt óbreytt.

21. mál: Tillaga að starfsreglum um breyting á starfsreglum um prestssetur og aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar. Samþykkt óbreytt.

24. mál: Tillaga um starfsreglur um breytingu á starfsreglum um sóknarnefndir. Kirkjuþing samþykkti eftirfarandi breytingar á starfsreglum um sóknarnefndir:
1. Á eftir orðinu „leggja“ í 2. málsl 2. mgr. 8. gr. starfsreglnanna kemur: starfandi.
2. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. starfsreglnanna bætist nýr málsliður, svohljóðandi:
Sóknarnefnd skal í samráði við starfandi sóknarprest og/eða starfandi prest boða til aðalsafnaðarfundar sóknarinnar.

26. mál: Tillaga til þingsályktunar um brottvísanir flóttafólks sem hefur fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki. Tillagan samþykkt með þessum breytingum. „Kirkjuþing 2020 hvetur íslensk stjórnvöld til að vísa umsæjendum um alþjóðlega vernd ekki úr landi án efnislegrar meðferðar hælisumsóknar. Þjóðkirkjan hefur sérstakar áhyggjur af börnum í þessum hópi. Þessu til viðbótar hvetur kirkjuþing íslensk stjórnvöld til að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd dvalarleyfi af mannúðarástæðum ef þau hafa dvalið hérlendis til lengri tíma og aðlagast samfélaginu óháð niðurstöðu máls þeirra.“

27. mál: Tillaga til þingsályktunar um að skipa nefnd til að endurskoða starfsreglur um kjör til kirkjuþings. Samþykkt óbreytt.

29. mál: Tillaga til þingsályktunar um hugverkaskráningu. Samþykkt óbreytt.

30. mál: Tillaga til þingsályktunar um skráningu lausamuna. Samþykkt óbreytt.

31. mál: Tillaga til þingsályktunar um Fréttabréf biskupsstofu og Víðförla, fréttablað kirkjunnar. Samþykkt óbreytt.

32. mál: Tillaga til þingsályktunar um greiðslur útfararkostnaðar. Samþykkt svo með breytingartillögu: „Kirkjuþing 2020-2021 samþykkir að biskupsstofa gangi nú þegar til samninga við Kirkjugarðasambandið um innheimtu útfararkostnaðar og greiðslur til presta vegna þjónustu við útfarir gegn innheimtuþóknun. Innheimtuþóknun greiðist ekki úr sjóðum kirkjunnar.“

33. mál: Tillaga til þingsályktunar um skipan starfshóps til mótunar stefnu varðandi nánari útfærslu á fasteignastefnu þjóðkirkjunnar. Samþykkt óbreytt.

35. mál: Tillaga að starfsreglum um breyting á starfsreglum um val og veitingu prestsembætta. Samþykkt. (Leitað var afbrigða til að málið væri tekið til umræðu og var það samþykkt.) Samþykkt óbreytt.

Frestað

2. mál: Afgreiðslu á skýrslu um fjármál þjóðkirkjunnar og fjárhagsáætlun var frestað fram í nóvember.

4. mál: Um samskipta- og siðareglur þjóðkirkjunnar frestað.

9. mál: Frestað fram í nóvember/mars: Tillaga að starfsreglum um breytingar á ýmsum starfsreglum kirkjuþings samkvæmt heimildum í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, með síðari breytingum.

10. mál: Sameiningu Hvanneyrar- og Reykholtsprestakall, Vesturlandsprófastsdæmi, í eitt nýtt prestakall, Reykholtsprestakall, frestað fram til þingfundar í nóvember.

11. mál: Tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum um skipulag kirkjunnar í héraði nr. 1026/2007, með síðari breytingum. „Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. starfsreglnanna: Lögbýlin Auðsholt 1, Auðsholt 2, Auðsholt 3, Auðsholt 4 og Auðsholt 5, sem nú tilheyra Skálholtssókn í Skálholtsprestakalli, tilheyri eftirleiðis Hrepphólasókn í Hrunaprestakalli. Felst í þessu breyting sóknarmarka á milli téðra sókna og prestakalla.“

13. mál: Tillaga til þingsályktunar um kaup og sölu fasteigna, (Syðra-Laugaland, og Brúnir).

14. mál: Tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum um prestssetur og aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar nr. 950/2009, með síðari breytingum. Frestað.

15. mál: Tillaga til þingsályktunar um breytingu fasteignastefnu þjóðkirkjunnar. Frestað.

17. mál: Tillaga að starfsreglum um ráðningu í prestsstarf – málinu frestað.

19. mál: Tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum um val og veitingu prestsembætta. Frestað.

22. mál: Tillaga að að starfsreglum um Skálholtsstað. Frestað.

23. mál: Tillaga að þingsályktun um verkáætlun vegna umhirðu jarða þjóðkirkjunnar: „Fjárhagsnefnd hefur fjallað málið. Nefndin telur ekki rétt að málið fái framgang þar sem hvorki er búið að ljúka endurskoðun fasteignastefnu þjóðkirkjunnar né gera sundurliðaða kostnaðaráætlun vegna verkáætlunarinnar. Nefndin leggur til að málið fái ekki framgang.“

Dagskrártillaga kom fram og var hún samþykkt: „Kirkjuþing 2020 samþykkir að fela kirkjuráði að vinna betur kostnaðaráætlun vegna tillögunnar og samræma tillöguna fasteignastefnu þjóðkirkjunnar. Tillagan verði lögð fyrir kirkjuþing 2020 er kemur saman í nóvember.“

25. mál: Tillaga til þingsályktunar um mótun stefnu þjóðkirkjunnar í málum fólks á flótta og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Málinu frestað.

28. mál: Tillaga til þingsályktunar um heimasíðu og aðra miðla. Breytingartillaga kom fram: „Lagt er til að sett verði á fót tengslaráð þjóðkirkjunnar þar sem í sitja fulltrúi kenningarnefndar, fulltrúi biskups Íslands, sem skal vera sérfróður í almannatengslum og fulltrúi á kirkjuþingi. Hlutverk og markmið tengslaráðs verði að tryggja að samskiptastefna þjóðkirkjunnar verði endurvakin og henni fylgt, móta árlega stefnu og starf kirkjunnar í almannatengslum og sjá til þess að því sé fylgt eftir, hafa yfirumsjón með ritstjórn á miðlum kirkjunnar s.s. vef kirkjunnar, fara yfir efni og auglýsingar sem biskupsstofa sendir út á sviði almannatengsla og fræðslu í því skyni að gæta þess að efni það sé í samræmi við kenningu kirkjunnar og stefnumál.“ Málinu frestað.

34. mál: Tillaga að starfsreglum um starfskostnað vegna prestsþjónustu og prófastsstarfa. Frestað.

Dregið til baka


20. mál: Tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum um presta. Löggjafanefnd hafnaði málinu á þeim forsendum að hún taldi biskup hafa þær heimildir er tillagan fjallaði um.

hsh












 

    hateigskirkja.jpg - mynd

    Samverustund syrgjenda á aðventunni

    13. nóv. 2024
    Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
    kirkjanisaugl.jpg - mynd

    Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

    12. nóv. 2024
    Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
    Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

    Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

    08. nóv. 2024
    ...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls