Á kunnugum slóðum
Sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson vígðist til Mosfellsprestakalls vorið 1998 og þjónaði þar sem prestur í rúmt ár. Þá fékk hann Norðfjarðarprestakall og fór austur og þjónaði þar fram allt þar til að gerðar breytingar voru á prestakallaskipan fyrir austan fyrir nokkru og búið til nýtt prestakall, Austfjarðaprestakall í nýju prófastsdæmi, Austurlandsprófastsdæmi. Til að liðka til fyrir þeim breytingum fór sr. Sigurður í sérþjónustu á vegum þjóðkirkjunnar og þjónaði að ýmsum kirkjumálum á Austurlandi. Nú lýkur hann sínum starfsferli innan kirkjunnar með þjónustu í Mosfellsprestakalli fram á næsta ár eða þar til hann verður sjötugur. Sr. Sigurður segir að mikill kraftur sé í prestakallinu og starfið afar fjölbreytilegt. Hann hlakkar til að komandi starfsárs á kunnugum slóðum.
„Gaman reyndar að loka hringnum og koma að upphafinu aftur og rifja upp gömul kynni við fyrrverandi sóknarbörn,“ segir sr. Sigurður glaður í bragði þegar kirkjan.is spyr hann nánar út í málin. Sr. Sigurður bjó svo árum skiptir í Mosfellsbæ og er því öllum hnútum þar kunnugur. Auk þess sem hann var í hestamennsku og hafði um árabil atvinnu af þeirri grein með ýmsum hætti - þá þarf ekki segja meira – sú íþrótt og tómstund tengir fólk saman úr öllum landshlutum með einstökum hætti. Sr. Sigurður segist munu ganga í öll prestsstörf í prestakallinu en sóknarprestur er sr. Ragnheiður Jónsdóttir. Þá er og prestur þar sr. Arndís Bernhardsdóttir Linn og djákninn Rut G. Magnúsdóttir.
Í Mosfellsbæ búa tæplega tólfþúsund manns og mikið hefur verið byggt þar í bæ síðustu árin enda bærinn vinsæll. Prestakallið er ein sókn, Lágafellssókn með tvær kirkjur: Mosfellskirkju og Lágafellskirkju.
hsh