Vorhátíð í september

23. september 2020

Vorhátíð í september

Safnaðarheimili Egilsstaðasóknar á fögrum haustdegi þegar vorið átti hug allra. Það er gegnt kirkjunni, Hörgsási 4, og var íbúðarhús sem söfnuðurinn keypti árið 2008. Breytingar voru gerðar á því sem hæfðu nýju hlutverki og húsið var vígt ári síðar. Húsið tekur hátt í eitthundrað manns í sæti. Yfirlætislaust hús með stórt hjarta.

Kirkjan.is er mjög svo þakklát þegar fréttir berast inn á borð til hennar og hvetur sem flesta til að senda fréttir eða fréttapunkta á kirkjan@kirkjan.is. Fullt tilefni er til að vekja athygli á fjölbreytilegu starfi kirkjunnar um allt land. Ef kirkjan gerir það ekki, hver á þá að gera það?

Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur í Egilsstaðaprestakalli, hafði samband og sagði frá krökkunum í sunnudagaskóla kirkjunnar sem fengu loksins pulsupartýið sitt.

„Á sunnudaginn var nú aldeilis glatt á hjalla í safnaðarheimili Egilsstaðakirkju,“ segir sr. Kristín Þórunn, en þá hélt sunnudagaskólinn sína árlegu vorhátíð.

Kirkjan.is hváir og lítur út um gluggann. Sér ekki betur en haustþungur himinninn hvíli yfir höfuðstaðnum. Ekki að spyrja að þessum Austfirðingum. Eintóm sól og sæla þar. Eilíft vor. Það var og. 

Vorhátíð... er sagt með semingi.

„Já, þú heyrðir rétt, vorhátíð,“ segir sr. Kristín Þórunn hlæjandi: „Vorhátíð í september!“

Kórónuveirufaraldurinn hefur nefnilega snúið ýmsu á hvolf. Eins og því að vorið kemur um haustið. Og hver hefur svosem á móti tvöföldu vori?

Í Egilsstaðakirkju er venja að halda vorhátíð með grilluðum pylsum, sápukúlum, glensi og gamni eftir vetrarstarfið í sunnudagaskólanum en allir vita jú að í vor sem leið var það ekki í boði út af samkomubanni.

„Þess vegna var veislu slegið upp núna í haustlitadýrðinni,“ segir sr. Kristín Þórunn og alsæl í hinu nýja Múlaþingi sem varð til við sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi fyrr á árinu. Öllum krökkum var boðið í sunnudagaskóla sem endaði með pulsupartýi, djús og sápukúlum.

Og ný ryður austfirska haustvorið sólinni leið gegnum muggu höfuðstaðarins tíðindamanni til ómældrar gleði.

„Rýmið okkar var auðvitað skreytt haustlituðum laufum og eldrauðum reyniberjum,“ segir sr. Kristín Þórunn. Þar voru ungleiðtogar í sunnudagaskólanum sem notuðu morguninn til að safna saman laufum og berjum og leggja á borð.

Biblíusaga dagsins átti svo sannarlega vel við en hún sagði frá fuglum himinsins og hvatningu Jesú til að hafa ekki áhyggjur, heldur treysta Guði. „Það var gott veganesti inn í haustið og veturinn, sérstaklega á þessum undarlega kórónuveirutíma,“ segir sr. Kristín Þórunn í lokin.

„Kirkjustarf á Héraði er virkilega vel rekið, og þá er ég ekki bara að tala um gott prestateymi sem vinnur samhent, heldur líka allar sóknarnefndirnar og sjálfboðaliðana sem láta hendur standa fram úr ermum til að sinna kirkjuhúsum og starfi. Hér er blómlegt menningar- og tónlistarstarf og kirkjan nýtur þess sannarlega,“ segir sr. Kristín Þórunn.

„Svissað“ til Egilsstaða
Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir er nú settur prestur í Egilsstaðaprestakalli í eitt ár. Sóknarpresturinn, sr. Þorgeir Arason, er í námsleyfi með fjölskyldu sinni í Chicago í eitt ár. Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir er settur sóknarprestur og svo er þriðji presturinn í prestakallinu, sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur. Þá er Berglind Hönnudóttir, æskulýðsfrömuður, starfandi á svæðinu.

Sr. Kristín var lengi vel héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi, og síðast sóknarprestur í Laugarneskirkju í Reykjavík en hefur búið hin síðari ár i Genf í Sviss þar sem eiginmaður hennar, sr. Árni Svanur Daníelsson, leiðir samskiptasvið Lútherska heimssambandsins. Sjálf hefur hún síðustu ár verið forseti lúthersku enskumælandi kirkjunnar í Genf. Sr. Kristín Þórunn býr þennan starfsvetur á Egilsstöðum með tveimur yngri börnum sínum og á tvö uppkomin börn í Reykjavík.

hsh


  • Barnastarf

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls