Margt leynist í kirkjum
Öldum saman hafa kjallarar í kirkjum verið notaðir til ýmissa hluta. Þar hafa verið kapellur, bókasöfn og geymslur. Einnig hefur látnum kirkjuhöfðingjum og kóngafólki verið komið þar fyrir undir miklum björgum og oft meistaralega tilhöggnum. Þá hafa listaverk verið geymd þar og sum gleymst og verið enn meiri listaverk þegar þau fundust.
Kirkjukjallarar eru því spennandi staðir.
Kjallarinn í Digraneskirkju mun geyma merka gripi í vetur og næstu árin. Kannski ekki svo mjög kirkjulega að áliti margra en í sumra augum eru þeir nánast helgir gripir, að minnsta kosti út frá veraldlegum sjónarhóli.
Það eru mótorhjól. Reynda eru lekabyttur forboðnar. Kemur kannski engum á óvart að hér skuli Digraneskirkja eiga í hlut enda klerkurinn, sr. Gunnar Sigurjónsson, mótorhjólaklerkur Íslands.
Hægt er að fá leigt pláss undir mótorhjól í kjallara kirkjunnar og leigan gengur svo að sjálfsögðu til kirkjunnar.
Og geymslan hefur hlotið það biblíulega nafn Kúmran. Það er semsé sótt alla leið til norðvesturstrandar Dauðahafsins, þar sem heitir Khirbet Kúmran. Í klettum þar fannst árið 1947 fjöldi fornra handrita, meðal annars biblíuhandrit. Þar hafði þeim verið komið fyrir um aldir í traustu skjóli og á líkan hátt verða mótorfákarnir í kjallara Digraneskirkju í öruggri geymslu.
Kirkjan.is spurði sr. Gunnar nánar út í þetta.
„Kjallarann átti að fylla af möl á sínum tíma,“ segir sr. Gunnar hróðugur þegar hann lítur yfir kjallaraflæmið, „en við stoppuðum það.“ Hann segir að fyrir nokkru hafi kjallarinn verið tekinn í gegn, steypt gólf og veggir múraðir. Húsnæðið lítur mjög vel.
„Þetta er fyrst og síðast geymsla,“ segir sr. Gunnar, „hjól verða ekki hér til sýnis né heldur nein viðgerðaraðstaða.“ Hann telur að kjallarinn geti hýst á annað hundrað mótorhjól.
Fyrsta mótorhjólið kemur inn 1. október.
Leigutímabilið hefst á hverju ári í september og ársleiga er fyrsta árið kr. 39.000. Þá skal fjarlægja rafgeymi þegar komið er með hjólið í geymslu og lágmarksbensín skal vera á tanki.
Sr. Gunnar segir að leigan fari fyrst um sinn fari í það greiða útlagðan kostnað við framkvæmdir í kjallaranum. Síðan verður Kúmran-geymslan vonandi góð tekjulind fyrir kirkjuna. Þetta sé auk þess liður í að auka fjárhagslegt sjálfstæði hennar.
Sjá nánar hér.
hsh
Klerkur fyrir utan dyr Kúmrans
Vélfákur klerks fyrir utan Digraneskirkju
Hellir í Kúmran við Dauðahafið - í ellefu hellum fundust handrit í misgóðu ástandi