Hausthátíð í Breiðholti tókst vel
Hauststarf kirknanna fer óðum af stað. Kirkjan.is ætlar að heimsækja nokkrar kirkjur á nýbyrjuðu hausti og segja frá hvað ber fyrir augu og eyru.
Í gær var efnt til Hausthátíðar barna í Breiðholtskirkju. Þetta var sameiginleg fjölskylduguðsþjónusta með Fella- og Hólasókn en nú eru þær í einu prestakalli ásamt Breiðholtssókn, Breiðholtsprestakalli. Sameiningin var gerð á kirkjuþingi fyrir nokkru.
Fjöldi barna sótti hátíðina. Sum komu með foreldrum sínum, önnur höfðu rölt sjálf í kirkjuna ein eða með öðrum og að auki voru börn úr Alþjóðlega söfnuðinum mætt. Þar sem verið er að gera við kirkjuna fer allt helgihald fram á neðri hæðinni.
Þau sem stjórnuðu stundinni voru þau sr. Magnús B. Björnsson, Steinunn Þorbergsdóttir, djákni, og Steinunn Leifsdóttir.
Það var Örn Magnússon, organisti kirkjunnar, sem lék undir á píanó.
Hausthátíðin var sunnudagaskóli með hefðbundnu sniði.
Ekki verður annað sagt en að börnin hafi lifað sig inn í allt sem boðið var upp á – að minnsta kosti tóku þau þátt í því sem reitt var fram.
Það er alltaf mikil spenna að fá að kveikja á altariskertum og tóku öll viðstödd undir orðin: Ég er ljós heimsins... Börnin sungu af hjartans lyst, sumu kunnu flest allt, önnur stautuðu sig áfram eða horfðu á hin börnin syngja, hreyfingarnar voru kærkomnar og virtust þau kunna þær, og bænaþátttaka þeirra var einlæg.
Um brúðuleik sáu tvær stúlkur. Brúðuleikhús er mjög spennandi í augum barna og þau vilja gjarnan taka þátt í því. Mikilvægt er að undirbúa það vel, æfa texta og fleira svo allt heyrist vel sem sagt er. Svo er hægt að láta börn búa sjálf til brúðurnar en kirkjan.is hefur reynslu af því.
Sr. Magnús Björn sagði sögur á lifandi og skemmtilegan hátt eins og honum er einum lagið. Hann fangaði athygli barnanna þegar hann rakti guðspjall dagsins um það er Jesús vakti einkason ekkjunnar í Nain upp frá dauðum.
Það var sungið og hreyfisöngvar teknir föstum tökum. Allir fóru með trúarjátninguna og bænir í sameiningu.
Þær Steinunnar tvær stýrðu öllu sem að þeim sneri með styrkri hönd og organistinn lék af fingrum fram á píanóið.
Þetta var afslöppuð stund og heimilisleg; börn fengu að lita venjulegar biblíumyndir og föndra eitt og annað í lokin. Öll gæddu sér svo á pylsum eftir stundina og poppkorni.
Athyglisvert var að ekki var stuðst við neitt myndbandsefni – skjávarpi var notaður til að varpa textum upp á vegg. Þess vegna var stundin í sígildum tónum og slíkt form reynir oft mikið á stjórnendur - og reyndar líka stundum á þátttakendur. Þessi stund dró fram virka þátttöku eins og hægt var. Segja má að þetta hafi verið þátttökuhausthátíð, þar sem hver og einn fær auk þess að vera hann sjálfur eða hún sjálf. Og fullorðna fólkið tók að sjálfsögðu virkan þátt í stundinni.
Þátttaka í samveru af þessu tagi er mikilvæg ein og sér. Þetta er samvist í kirkju, á helgum stað – og helgi er nokkuð sem verður börnum smám saman inngróin. Fræðsla og helgihald rennur saman í einum farvegi. Hverjum einstaklingi er fagnað einlæga þegar hann eða hún gengur í hús og þátttakan mótast af því að öll finna sig sem hluta af þessari heild sem ofin er saman í sunnudagaskólanum. Finna sig hluta af kirkjunni, þjóðkirkjunni. Það er tilfinning og menntun sem styrkist við hverja stund í starfi kirkjunnar.
Barna- og æskulýðsstarf er grunnstarf kirkjunnar og mikilvægt að í boði sé gott og vandað efni eins og var á þessari hausthátíð þeirra Breiðhyltinga.
Börnin eru framtíð kirkjunnar og söfnuðurnir verða að rækja starf með þeim af metnaði og myndarskap.
hsh
Sr. Magnús Björn var vígalegur með grímuna - sóttvarnareglur í heiðri hafðar
Steinunn Þorbergsdóttir, djákni, og Steinunn Leifsdóttir, aðstoða börnin við að kveikja á altariskertum
Börnum finnst alltaf gaman að lita
Steinunn aðstoðar með brúðuleikhúsið
Örn Magnússon, organisti og Ólafsfirðingur
Margt á dagskrá í Breiðholtskirkju